14.5.2008 | 22:53
Nostalgígja - eins og maðurinn sagði
Ég er líklega enginn unglingur lengur. Ég stend mig a.m.k. að því hvað eftir annað að gefast upp á því sjónvarpsefni, sem í boði er, og skella í tækið einhverjum gömlum sjónvarpsþáttum sem ég hef dálæti á. Ef mig langar að horfa á gamanþætti verða Yes, Minister, Prúðuleikararnir eða Allo! Allo! gjarnan fyrir valinu. Ef ég er í skapi fyrir spennu horfi ég á Flóttamanninn (The Fugitive) með David Janssen, Dýrlinginn með Roger Moore, Mission Impossible með Martin Landau eða heldur nýrri þættir á borð við Inspector Morse og Prime Suspect.
Mig langar til að eignast Equalizer, sem er víst nýkominn út, og Jake & The Fatman. Þeir félagar (ekki má gleyma hundinum Max) voru oft ágætir. Svo bíð ég eftir að þættirnir Maverick verði gefnir út - ég man að ég horfði á þá í bernsku og hafði gaman af. Æ síðan hefur James Garner verið einn af eftirlætisleikurunum mínum.
Mér er þó ekki alls varnað. Ég er orðinn leiður á CSI og Law & Order, en hef ákaflega gaman af Dexter og svo eiga Aðþrengdar eiginkonur og Dirty Sexy Money góða spretti. Og á meðan ég get hlegið mig máttlausan að Hrútnum Hreini er ég sæmilega ungur í anda - held ég. Varla er komið að því í mínu tilfelli að tvisvar verði gamall maður barn - ég vona svo sannarlega ekki!
Athugasemdir
horfðu bara á spooks maður og þá ertu totally in.... hrúturinn hreinn er snillingur og dexter líka.
en ég skil þig alveg með nostalgíuna. hún er þó meira í tónlistinni hjá mér. og já, obba er sko mamma mín og valgeir leigubílstjóri pabbi... hálfur árskógsstrendingur og hálfur svarfdælingur. norðlenskt grjót.....
en talandi um nostalgíu.... hvað er að frétta af bensa kallinum??
arnar valgeirsson, 14.5.2008 kl. 23:02
Ég horfi reyndar alltaf á Spooks og hef gaman af - reyndar finnst mér margt gott sem RÚV hefur verið að sýna seint á þriðjudagskvöldum.
Bensi hefur í mörg ár verið kennari við VMA og er hinn hressasti.
Helgi Már Barðason, 15.5.2008 kl. 08:28
Í myrkasta skammdeginu sl.vetur horfði ég á allar 7 seríurnar af Frasier. Var farin að skammta mér þættina því að mér fannst þetta algjör snilld! Og finnst enn!!
Inga Dagný Eydal, 15.5.2008 kl. 12:55
Geimþættirnir FFH (UFO) eru til á diskum - ég rak augun í þá í London um daginn, en tímdi ekki að kaupa pakkann - svo var hann náttúrulega kominn á útsölu fljótlega eftir að ég var þarna á ferð! Það voru magnaðir þættir - hvernig skyldu þeir hafa elst?
Ég á langan lista yfir sjónvarpsþætti sem mig langar til að eignast - og geisladiska reyndar líka. Það er alveg sama hvað ég kaupi af þessu - listinn styttist ekki neitt! Merkilegur fjári.
Helgi Már Barðason, 15.5.2008 kl. 19:42