Flissað í dýi?

Æ fleiri tala nú um dýflissur með effi, þ.e. bera orðið fram dý-flissa. Í mínu ungdæmi lærði ég að þarna ætti að vera b-hljóð, eins og í Keflavík. Fyrirbærið héti sem sagt dýbb-lissa. Gaman væri að vita hvað er rétt í þessu efni.

Hitt veit ég að það er rangt að spá í einhverju, eins og margir gera nú orðið. Ætli þetta sé áhrifsbreyting frá orðasambandinu að velta fyrir sér? Ég er ekki mikið fyrir Megas, en hann hafði þó vit á að ráðleggja fólki að spá í sig, en ekki sér. Í alvöru talað, gætu menn hugsað sér þetta fína lag heita Spáðu í mér?

Vonandi spá menn ekki of mikið í þessu bulli mínu, en þeim er velkomið að spá í þetta bull mitt ef þeir nenna.

Í einhverri auglýsingu er líka talað um ást-ríðu. Mér var ungum kennt að þetta hétu á-stríður, en Ást-ríður væri á hinn bóginn kvenmannsnafn.

Og skelfing leiðist mér að heyra jafnvel ágætlega menntað fólk segja "Ég vill".

Lýkur nú hljóðum úr nöldurhorni Helga Más að sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband