23.5.2008 | 20:16
Evróvisjónið
Ég frétti að einhverjir væru að bíða eftir því að ég tjáði mig um evrópsku söngvakeppnina sem nú fer fram í landi serbneskra. Það er mér heiður og ánægja að vera talinn til spekúlanta á þessu sviði þó að ekki sé ég neinn sérfræðingur. Kannski halda menn það bara af því að ég var dálítið iðinn við að dusta rykið af gömlum Evróvisjónlögum meðan ég sá um þáttinn Pipar og salt á Rás 1.
Ég var að horfa á Kastljós áðan og þá kom í ljós að við Andrea Jónsdóttir, gamall samstarfsmaður minn af Rás 2, erum sammála um portúgalska lagið. Ég kaus það og finnst það stinga skemmtilega í stúf við flest önnur lögin í keppninni. Söngvarinn er í sómasamlegum holdum, klæðir sig almennilega og syngur mjög vel. Auk þess er lagið ágætt, sem auðvitað vegur þyngst! Það minnir um margt á róleg, falleg lög sem eitt sinn voru áberandi í keppninni en eru nú sjaldgæf. Hvort Portúgalar vinna í ár er svo annað mál.
Ekkert botna ég í vinsældum sænska lagsins, sem mér finnst óspennandi. Danska lagið er ágætt en mér finnst ég hafa heyrt það þúsund sinnum áður. Það finnska finnst mér óttalega klént, svo að ég fái lánaða klisju frá öðrum gömlum samstarfsmanni mínum - það er ekki nóg að flytja eitthvað sem má kalla rokk, það þarf að vera eitthvað varið í lagið og flutninginn. Synir mínir voru hrifnir af laginu frá Búlgaríu og daprir yfir því að það skyldi ekki ná lengra - og ég er eiginlega sammála þeim. Það skyldi þó aldrei hafa verið kjólnum að kenna?
Eftirlætislögin mín úr Evróvisjón eru mörg. Ég er alltaf jafn hrifinn af "Neka mi ne svane", sem keppti fyrir Króatíu fyrir nokkrum árum, og "Eres tu" frá Spáni er sígilt. Svo fannst mér gaman að Birthe Kjær hinni dönsku skyldi ganga vel um árið með lagið "Vi maler byen röd" og ekki var Norðmaðurinn Ketill Stokkan verri þegar hann söng um Rúmeó, eins og hann sagði. Já, þau eru mörg, gullkornin í Evróvisjón.
En hvaða lag skyldi oftast sönglast um í hausnum á mér? Jú, haldið ykkur fast: "Flying The Flag", framlag Breta síðan í fyrra. Gúð í himlen.
Athugasemdir
Sammála með Birthe kjær,hún er snillingur. En ég er ekki að samþykkja portugalska lagið engan vegin,sænska botoxbomban á ekki heldur öruggt atkvæði frá mér. Ég er í þessum töluðu að spila Eurovision diskana út og suður til að mynda mér skoðun á hvaða lag skuli hljóta mitt atkvæði annað kvöld. Maður verður nú að gera þetta almennilega
Engin spurning samt að allar norðurlandaþjóðirnar gefa hver annarri stig innbyrðis eins og venjulega,meiri norðurlandamafían sko
Líney, 23.5.2008 kl. 20:30