14.7.2008 | 12:05
Vinur Iceland Express
Ég er mikill vinur Iceland Express. Ég hef flogið með félaginu nokkrum sinnum og hef af því ágæta reynslu. Ég er ánægður með að til skuli vera sterkt félag sem veitt getur Icelandair almennilega samkeppni. Mér er ekki illa við Icelandair, síður en svo, og hef notið ágætrar þjónustu þess í áranna rás, en tel að betri séu tvö félög en eitt.
Hins vegar hefur það gerst á undanförnum vikum að farþegar Iceland Express hafa verið að kvarta undan félaginu, einkum seinkunum og afleiðingum þeirra. Í því máli sé ég ekki betur en að einn höfuðvandinn sé upplýsingafulltrúi félagsins, en ef rétt hefur verið vitnað í hann í dag og á síðustu vikum þarf hann að læra svolítið meira í almennum samskiptum og mannasiðum.
Upplýsingafulltrúinn hleypur strax í vörn fyrir félagið og segir fólki nánast að það verði að bíta í sitt súra epli og kyngja mótlætinu. Svoleiðis viðbrögð auka ekki vinsældir fyrirtækis. Ekki þarf annað en segja að félaginu þyki þetta leitt og það biðji farþega afsökunar á óþægindunum til að létta fólki lund og ýta undir jákvætt viðhorf til félagsins.
Ég vona að ég verði áfram mikill vinur Iceland Express. En þá verður fyrirtækið að hætta að hreyta ónotum í viðskiptavini sína og fara svolítið betur að þeim. Annars leitar fólk annað.
Athugasemdir
Ég get tekið undir hvert einasta orð sem hér er skrifað.
Gunnur B Ringsted, 15.7.2008 kl. 12:50
Farinn að finna fyrir svipaðir tilfinningu...er að missa svolítið traustið á félaginu.
kv.
Lói
Eyjólfur Sturlaugsson, 16.7.2008 kl. 20:53