30.7.2008 | 09:17
Margt býr í þokunni
Á leiðinni í vinnuna í morgun rölti ég eins og oftast eftir fallega göngustígnum sem liggur frá Hrísalundi að Háskólanum á Akureyri. Það var þoka, en þó ekki svalt, mælirinn heima sýndi 15 stig. Hér hefur ekki rignt neitt að ráði um skeið og því var rakinn kærkominn.
Þegar ég lallaði eftir stígnum fann ég alls konar angan. Fyrst ilminn af birkinu, sem er ólýsanlega góður. Svo tóku við víðirunnar, sem líka ilmuðu, og þar á eftir furulundur, sem ilmaði yndislega. Þegar trjánum sleppti fékk ég að njóta anganinnar af vallhumlinum sem vex meðfram gangstéttinni.
Já, margt býr í þokunni og ekki allt slæmt. Það uppgötvaði ég í morgun. Og það er sama hvað maðurinn reynir, aldrei mun honum takast að búa til ilm sem jafnast á við þann sem náttúran framleiðir.