Virðingarleysi

Þörf var umfjöllun Ragnhildar Sverrisdóttur í Morgunblaðinu um helgina um virðingarleysi fyrir lögreglunni. Þetta er þjóðarvandi. Ég veit ekki af hverju hann stafar. Varla af því einu að við erum orðin mjög upptekin af að horfa á þriðja flokks bandarískar bíómyndir og tölvuleiki - sem, vel að merkja, endurspegla ekki daglegt líf venjulegs fólks í því ágæta landi?

Að því er unga fólkið varðar hlýtur ábyrgðin að vera foreldranna að einhverju leyti. Ef til vill skólanna að vissu marki. En þegar fullorðið fólk og roskið er farið að veitast að lögreglu með munnsöfnuði, hótunum og jafnvel líkamlegu ofbeldi er eitthvað verulega mikið að.

Íslendingar eru víðkunnir fyrir þá lífsskoðun sína að það sé í lagi að brjóta lög meðan það komist ekki upp. Hvergi er þetta greinilegra en í umferðinni, en því miður virðist þetta vera hraustlega innbyggt í þjóðarsálina síðan á dögum sauðaþjófanna. Við erum líka dugleg við að setja alls kyns lög og reglur án þess að hugsa út í að þeim þurfi að framfylgja. Þetta veit almenningur, enda er fámennri stétt lögreglumanna ofviða að fylgjast með að öll lög séu alls staðar virt. Svo fýkur bara í okkur ef við erum staðin að verki og við látum fúkyrðin - jafnvel höggin - dynja á sendiboðunum.

Ég veit ekki hvort aðfarir lögreglunnar suður með sjó á dögunum voru harkalegar. Ég var ekki á staðnum og þekki ekki til. Lögreglan verður vitaskuld að sýna fólki tilhlýðilega virðingu og á auðvitað ekki virðingu skilið ef hún beitir saklausa borgara yfirgangi og fantaskap. Hitt veit ég að ég er ekki hlynntur því að fólk komist upp með að villa á sér heimildir og beita svikum og prettum. Í landinu gilda lög og eftir þeim eigum við að fara.

Öll.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Letilufsa

KLUKK

Letilufsa, 22.9.2008 kl. 21:50

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband