24.9.2008 | 21:50
Norðlenskur alþjóðaflugvöllur
Þó að einhverjir sveitungar mínir brigsli mér ef til vill um landráð fyrir vikið verð ég að taka undir margt af því sem Friðrik Sigurðsson segir í stuttri grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin fjallar m.a. um kosti flugvallar í Aðaldal umfram flugvöllinn við Akureyri, ekki síst með tilliti til millilandaflugs.
Aðaldalsflugvöllur hlýtur að vera öruggari kostur að mörgu leyti, ekki síst að því er varðar veðurskilyrði. Og ekki skiptir 30 mínútna akstur (um Vaðlaheiðargöng) Akureyringa miklu máli. Annað eins hafa nú Reykvíkingar þurft að þola í áranna rás. Líklega þætti Siglfirðingum og Skagfirðingum verra að þurfa að aka austur í Aðaldal, en allt er þó betra en þurfa ævinlega að keyra alla leið suður á Miðnesheiði.
Ég get ekki annað en tekið undir óskir um að gerð millilandaflugvallar í Aðaldal verði tekin til rækilegrar skoðunar. Þó að ég sé enginn flugmálasérfræðingur, langt í frá, yrði ég ekki hissa þótt einhverjir flugmenn væru mér sammála.
Athugasemdir
já endilega...í dag þurfa Húsvíkingar að keyra til Akureyrar.
Hólmdís Hjartardóttir, 24.9.2008 kl. 22:28