1.10.2008 | 11:55
Bræla á bílastæðinu
Á minni stuttu leið að biðstöð strætisvagnsins í morgun gekk ég framhjá tveimur bílum, sem mannlausir voru í gangi á bílastæði fyrir framan hús eigenda sinna.
Annar var nýlegur, japanskur stórjeppi, hinn gamall fólksbíll.
Það var slydduhraglandi en frostlaust.
Eftir að ég var kominn út úr mengunarbrælunni velti ég fyrir mér hvers vegna svona lagað tíðkaðist ennþá hér á landi voru.
Fólksbíllinn gengur áreiðanlega fyrir bensíni, en ég hélt að sú tíð væri löngu liðin að ræsa þyrfti jeppa með dísilvélar nokkru fyrir áformaða brottför.
Þola eigendur ökutækjanna illa kulda? Eða nenna þeir ekki að klæða sig almennilega?
Hvað gera þeir þá þegar vetrar fyrir alvöru?
Blessaðir mennirnir.