8.10.2008 | 19:30
Gegnsýrður
Ég held ég ætti að fara að gera eitthvað annað en fylgjast með fréttum.
Á vefnum í dag las ég fyrirsögn þar sem fram kom að enn væri verið að leita að íslenskri krónu. Þegar ég hafði sett upp réttu gleraugun kom í ljós að leitað var að íslenskri konu.
Rétt fyrir fréttir í kvöld heyrði ég sungið á íslensku í útvarpinu: "Ég held ég hafi gengið of lágt." Ég var búinn að hlusta á þessa laglínu margoft þegar ég áttaði mig á því að söngvarinn taldi sig hafa gengið of langt.
Ég ætla að setjast niður í kvöld, gleyma öllum fréttum og horfa á góðan krimma. Vona bara að viðfangsefni lögreglumannanna verði ekki fjárglæfrar og fjármálasukk.
Athugasemdir
Ég held það sé nú bara hollt fyrir heilsuna núna að fara í fréttabindindi í nokkra daga.
Gunnur B Ringsted, 9.10.2008 kl. 12:17
Sæl heillin .. hálfur formaður heilsar hálfum formanni .. takk fyrir skrifin góð
Guðríður
Guðríður Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 12.10.2008 kl. 18:39