1.11.2008 | 23:33
Áhyggjur
Ég veit ekki hvort ég þori að fara á nýju Bond-myndina. Hún hefur fengið nokkuð misjafna dóma - í dag sagði gagnrýnandi Sky að Quantum of Solace væri dúndur-hasarmynd ... en alls ekki James Bond-mynd. Hún væri miklu líkari mynd með Jason Bourne og lítill munur væri á Daniel Craig og Matt Damon.
Myndirnar um Jason Bourne eru skemmtilegar, þó að hasarinn sé á köflum svo mikill að maður á fullt í fangi með að fylgjast með. Svoleiðis mega Bond-myndir ekki vera. Bond verður að fá að dreypa á hristum vodka martini, brosa út í annað, gilja konur, daðra við Moneypenny og kynna sér nýjustu uppfinningar hins snjalla Q. Já, ég veit að ég er gamaldags, en svona hefur Bond alltaf verið og þannig vil ég hafa hann áfram. Vanti þetta er Bond ekki Bond.
Annars finnst mér að James Bond hafi átt að fá að eldast. Hann fékk að eldast með Sean Connery og síðan Roger Moore, en eftir 1985 tók karlinn upp á því að yngjast og gerðist auk þess alvörugefnari. Ég verð að játa að ég er ekkert yfir mig hrifinn af því hvernig Daniel Craig fer með hlutverkið og er ég þó ekki sérlega vandlátur á Bonda. Þeir hafa allir verið góðir - Roger Moore bestur (og fjarri sanni að hann hafi breytt Bond í trúð, enda var hann sá sem Ian Fleming vildi fá í hlutverkið), en hinir litlu síðri. Nei, Timothy Dalton er ekki undanskilinn. Hann var fínn Bond á erfiðum tímum fyrir kvennabósa.
Ég legg enn og aftur til að Roger Moore eða Sean Connery verði fenginn til að leika Bond á gamals aldri. Oft er það gott sem gamlir kveða og ég held að það sé fjarstæða að aldurhniginn njósnari myndi fæla gesti frá því að mæta í bíó. Indiana Jones er til dæmis enginn unglingur lengur, en laðar að gesti á öllum aldri. Og man einhver eftir Equalizer? Einhverjum vinsælasta sjónvarpsþætti níunda áratugarins? Ekki var karlinn sá neitt unglamb en aðdáendur hans voru hins vegar margir ungir að árum.
Framleiðendur Bond-myndanna mega víst ekki nota persónuna Blofeld - sem er synd og skömm. Það væri meira en lítið gaman að sjá þá erkióvinina kljást á efri árum.
Auk þess legg ég til að skipulögð verði mótmæli gegn öllum þessum mótmælum.