Bond enn og aftur

Ég er eiginlega alveg hættur við að fara á nýju Bond-myndina eftir að hafa lesið um hana dóma í íslenskum og erlendum blöðum.

Ég hef gaman af hröðum og góðum hasarmyndum, en ekki ef það merkir að Bond er róbótíseraður og gerður að húmorslausum, alltumhlaupandi freðufsa. Nóg er af slíkum myndum og að mínu áliti á ekki að spyrða James Bond saman við slíkar hraðþvælur. Daniel Craig var kominn í þann gírinn í síðustu mynd, sem að mínu áliti er dauflegasta Bondmynd frá upphafi þrátt fyrir hasarinn, og persónan, karakterlaus og steingeld, var ekki í neinum takti við þá Bonda sem á undan hafa komið.

Nýlega sá ég í blaði einu myndarlega samantekt á því hverjar væru 5 bestu Bondmyndirnar og hverjar væru fimm þær verstu.

Ég hélt í fyrstu að þetta væru niðurstöður einhverrar könnunar, kannski bara óformlegrar, en ég hrökk eiginlega í kút þegar ég uppgötvaði að þetta var bara niðurstaða eins blaðamanns. Að minnsta kosti gat ég ekki betur séð.

Ætli ég geti líka tekið saman einhvern svona léttan þvætting og sent blaði til birtingar? Og fengið jafnvel hálfa síðu?

Ég segi þvætting, vegna þess að ég gat ekki séð að valið væri almennilega rökstutt. Hvað er nákvæmlega átt við þegar sagt er að einhver Bond-mynd sé "verst"? Hvað er að? Hvað skortir? Hverju er ofaukið? Og hvað gerir Bond-mynd "góða"?

Ég veit að ég á ekki að taka sjálfan mig svona alvarlega, en ég geri þá kröfu til blaða að úttekt á þeirra vegum sé sæmilega fagleg. Þessi umfjöllun átti miklu fremur heima á bloggsíðu en í víðlesnu dagblaði. Fleiri Bond-aðdáendur en ég urðu hissa. Fyrir nokkrum árum gerði ég nokkra útvarpsþætti um James Bond og myndirnar (sem þá voru tuttugu) og reyndi eftir megni að vera sæmilega hlutlægur. Mín persónulega skoðun á því hver er besti Bondinn eða Bondmyndin kemur hlustendum nefnilega ekki við - ekki fremur en skoðun blaðamannsins kemur lesendum við, nema þá á bloggsíðu eða í einhvers konar dagbókarfærslu.

Til gamans er ég að hugsa um, af því að þetta er nú bloggsíða, að gefa ykkur hugmynd um hver mér þykja bestu og verstu Bondlögin. Umfjöllunin er fullkomlega faglaus. Ég er líka 100% sannfærður um að ekki finnst einn einasti kjaftur sem verður sammála mér.

BESTU BOND-LÖGIN:

1. Goldfinger. Klassík. Shirley Bassey er eini listamaðurinn sem flutt hefur fleiri en eitt Bondlag (þrjú raunar) og þetta er það besta.

2. All Time High (úr Octopussy). Fallegasta Bondlagið og eitt besta lag sem Rita Coolidge hefur sungið á ferli sínum. Hæfir rödd hennar einstaklega vel og myndinni einnig.

3. You Only Live Twice. Seiðandi eins og Bond á að vera. Nancy Sinatra hefur ekta rödd í svona lag.

4. The World Is Not Enough. Garbage blandar snilldarlega saman hefð og nýjum hljómi.

5. Licence To Kill. Ef einhver getur fetað í fótspor Shirley Bassey er það Gladys Knight. Dúndurlag og fellur vel að hefðinni.

 

VERSTU BOND-LÖGIN

1. Die Another Day. Hverjum datt eiginlega í hug að hleypa Madonnu í heim Bonds? Alger lagleysa og smekkleysa.

2. Live And Let Die. Mörg lög saman í einum pakka, Bondlegt á köflum en tekur furðulegar beygjur, annað veifið út í móa. Paul McCartney er bara ekki nógu snjall til að ráða við svona lagað.

3. Thunderball. Samið í skyndi þegar hætt var við (ennþá verra) lag með Dionne Warwick og það leynir sér ekki. Tom Jones syngur.

4. The Man With The Golden Gun. Kokkteill sem ekki gengur upp. Hægi kaflinn á skjön við þann hraða en Lulu er alltaf skemmtileg.

5. The Living Daylights. Svo sem ekkert slæmt lag, en Bondstíllinn er víðs fjarri og ómögulegt að heyra að þetta lag komi úr slíkri mynd.

Og hver finnst mér þá vera besta Bond-myndin? Svar: The Spy Who Loved Me. Og af hverju? Af því að mér finnst hún skemmtilegust og á hana get ég horft oftar en flestar hinna. Svo einfalt er það.

Sú versta (að mínu áliti) er nefnd hér að ofan.

Og hananú. Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband