Læknaraunir

Ég hef nú gert allnokkrar árangurslitlar tilraunir til að reyna að horfa á bandaríska læknaþáttinn House og hafa gaman af. Það hefur sem sé ekki tekist enn og mér er eiginlega hulin ráðgáta hvers vegna. Vinnufélagar mínir eru ákaflega hrifnir af þessum þáttum og margir kunningja minna líka, en ég engist og þjáist af andlegum kvölum sem ekki linnir fyrr en ég stend upp og geng burt frá sjónvarpstækinu.

Ef til vill er það bandarískur hreimur Hughs Laurie, sem þó er annálaður, að sögn. Ég veit það ekki - það er eitthvað við hreiminn sem fer í taugarnar á mér. Eitthvað sem kemur upp um hann. Eitthvað sem veldur því að mér finnst neonljósaskilti með orðunum "FAKE" fara í gang þvert um andlitið á manninum í hvert skipti sem hann opnar túlann.

Ef til vill er það skortur á sympatískum persónum í þáttunum. Sjálfur er doktor Hás svo leiðinlegur að engum yrði líft nálægt honum lengur en í fáeinar sekúndur, væri hann raunverulegur. Yfirmaður hans er tröllheimsk, húmorslaus kona - ég hef ekki séð aðra hlið í þau skipti sem ég hef reynt að horfa - og samstarfsmennirnir litlausir og bitlausir. Sjúkdómarnir eru vissulega krassandi stundum - ég vildi bara að það væri skemmtilegra fólk sem fengist við þá.

En er það kannski ég sem er aðfinnsluverður frekar en þátturinn? Stundum held ég að svo sé. Hvernig má það annars vera að ég, sem má vart vamm mitt vita (!) og ekkert aumt sjá, nýt þess í botn að fylgjast með fjöldamorðingjanum Dexter, sem eyðir mannslífum, en þoli ekki lækni sem reynir að bjarga þeim?

Ég veit það ekki. Hitt veit ég að ég ætla svo sannarlega að horfa á vin minn Dexter í kvöld en frekari tilraunir til að horfa á þátt um House bíða næsta árs. Hins vegar gæti vel verið að ég keypti mér sett af þáttum um þá Jeeves og Wooster næst þegar pyngjan mín veitir mér leyfi - þar fór Hugh Laurie á kostum, enda í miklu betri félagsskap.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Ég er mikill aðdándi Dr House. Eiginlega eina leikna efnið sem ég nenni að horfa á.  

Hólmdís Hjartardóttir, 17.11.2008 kl. 01:14

2 identicon

Spúsa mín elskar þessa þætti, en mér finnast þeir skelfilega leiðinlegir, og hef lokið mínum tilraunum við að reyna að umbera þá. Segir kannski meira um mig en þættina

Bubbi J. (IP-tala skráð) 17.11.2008 kl. 22:44

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband