13.12.2008 | 20:42
Raunasaga af Sprettinum
Léleg þótti mér þjónustan hjá pítsugerðinni og myndbandaleigunni Sprettinum á Akureyri í dag.
Við hjónin vorum að halda upp á afmæli yngri sonar okkar og tókum á leigu myndina Leyndardómar Snæfellsjökuls (Journey to the Center of the Earth), sem við vissum að myndi falla í kramið hjá afmælisgestum, rúmlega tug fjörmikilla tíu ára drengja.
Afgreiðslukonan, ung stúlka en þó enginn unglingur, nefndi ekki að myndin væri í þrívídd og að til þess að njóta hennar þyrftu áhorfendur sérstök gleraugu. Þaðan af síður nefndi hún að gleraugun, sem fylgdu myndinni, væru aðeins fern talsins.
Við hjónin mættum alsæl með myndina í afmælið en fljótt kom í ljós hvers kyns var. Brá ég þá á það ráð að bruna á Sprettinn og kanna hvort ég gæti fengið tólf gleraugu til viðbótar. Stúlkan var hin alúðlegasta, hringdi í einhvern til að athuga málið, en sagði svo að því miður væri það ekki hægt.
Spurði ég þá hvort ég gæti fengið ein gleraugu til viðbótar, svo að við, fimm manna fjölskyldan, gætum horft á myndina í kvöld, að afmælinu loknu.
Stúlkan svaraði neitandi. "Getur þá fimm manna fjölskylda ekki horft saman á myndina?" spurði ég gáttaður.
Nú hafði stúlkan greinilega notað allan almennilegheitaskammt dagsins því að hún svaraði bara: "Nei, og ekki heldur sex manna fjölskylda."
Það fauk í mig við þetta og sagði ég stúlkunni að ég kæmi aftur eftir smástund með myndina og vildi þá fá endurgreitt. Daman gapti af undrun og gapir sjálfsagt enn, því að ég lét undan þrábeiðni barnanna minna og hélt myndinni. Til þess að fjölskyldan gæti öll horft saman á hana fékk ég lánuð þrívíddargleraugu hjá vini eldri sonar míns og erum við nú um það bil að setjast niður með popp og gos og njóta hennar.
En ekki er það Sprettinum að þakka.
Ég ætla ekki að krefjast endurgreiðslu, en hins vegar ætla ég að vera duglegur að auglýsa þá lélegu þjónustu og drungalegt viðmótið sem viðskiptavinir geta vænst á þessum stað. Og ég ætla ekki að skipta við Sprettinn aftur í bráð, enda víða betri pítsur og notalegri myndbandaleigur í bænum.
Athugasemdir
til hamingju með tvíbbana
Steini Gunnars (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 11:43