Heygarðshornið

Fyrirsjáanleg voru úrslitin í fyrsta hluta undanrása söngvakeppninnar í sjónvarpinu í kvöld. Landsmenn völdu sæta strákinn og þekktustu stelpuna. Landsmenn völdu lögin tvö sem sungin voru á ensku. Völdu ekki íslenskt. Höfnuðu tungumálinu og sömuleiðis eina laginu þar sem vottaði fyrir þjóðlegri hefð. Ætlum við aldrei að læra að það skilar okkur eintómu skúffelsi þegar við rembumst við að herma eftir öðrum?

Lag Óskars Páls Sveinssonar, sem Jóhanna Guðrún söng, var að mínu áliti slakasta lag kvöldsins. Dramatíkin í lagi Heimis Sindrasonar var mikil (en ekkert sérlega sannfærandi) og sömuleiðis í flutningi söngvarans unga, sem hefur fantagóða rödd. Mér fannst þar bregða fyrir meinlegri málvillu nokkrum sinnum en vona að mér hafi misheyrst! Valgeir Skagfjörð var með athyglisvert lag en hefði að mínu viti mátt vera enn djarfari við að nýta sér þjóðlagahefðina. Hann á hins vegar hrós skilið fyrir viðleitnina, sem svínvirkaði að minnsta kosti á yðar einlægan. Ég er einhvern veginn svo hjartanlega sannfærður um að við náum ekki skikkanlegum árangri í Evróvisjón á ný fyrr en við komum með eitthvað sem enginn annar getur státað af - eitthvað íslenskt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband