21.2.2009 | 18:46
Nýi miðbærinn
Mikið vona ég að afturhaldssömu fólki takist ekki að koma í veg fyrir að miðbærinn á Akureyri öðlist líf að nýju. Mér líst afar vel á hugmyndirnar um að "snúa" miðbænum þannig að birtan og skjólið aukist og þar verði gott að vera, sumar sem vetur.
Síkið í miðbænum er snilldarhugmynd og fellur vel inn í skipulagið eins og það lítur út á teikningum. Og dásamlegt að Ráðhústorgið eigi aftur að verða grænt.
En sumir vilja engu breyta. Dæma allar breytingar fyrirfram ómögulegar. Það má hvergi byggja hús, reisa brú, breyta strætum, rífa skúra eða gera bæinn á neinn hátt byggilegri en nú er.
Mikið vona ég að framsýnin fái að ráða ferðinni í bænum mínum í þetta skipti þó að úrtölufólkið eigi áreiðanlega eftir að ybba gogg enn um sinn.