22.2.2009 | 00:14
Tvær ómissandi bækur
Ég er hrifinn af Facebook. Hún hefur að vísu ýmsa ókosti, er óttalegur tímaþjófur og þar úir og grúir af alls kyns drasli sem ævinlega er verið að skora á mann að senda vinum sínum eða þiggja frá þeim. En kostirnir eru fleiri. Ég hef til dæmis náð sambandi við urmul af gömlum skólafélögum, fyrrverandi nemendum, gömlum nágrönnum og ættingjum, nánum sem fjarlægum. Með hjálp bókanna tveggja, Íslendingabókar og Fésbókar, hefur mér tekist að hafa uppi á fjölda ættingja minna og það hefur veitt mér ómælda ánægju. Í kvöld var ég t.d. að spjalla við unga og fallega frænku mína austur á landi. Við þekktumst ekkert fyrir, en það gladdi mitt gamla hjarta hvað hún gaf sér góðan tíma til að spjalla og var áhugasöm um skyldleikann og ættfólk okkar.
Ég var einmitt (loksins) að lesa litla bók eftir frænda minn, Óskar Árna Óskarsson, sem tilnefnd var til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þar segir hann m.a. frá ömmu sinni, Stefaníu, sem var systir Önnu, ömmu minnar. Hann ræðir líka nokkuð um ömmubróður okkar, Magnús Stefánsson skáld, og minnist á samskipti Stefaníu og Magnúsar við systurina Ragnheiði, sem fluttist til Kanada og lést þar fyrir allmörgum árum.
Amma átti einn bróður, fjórar alsystur og eina hálfsystur. Systkinin ólust ekki upp saman, kjörin voru kröpp, langamma varð snemma ekkja og neyddist til að senda dæturnar í fóstur hingað og þangað. Magnús var yngstur og fylgdi mömmu sinni. Sambandið milli systkinanna var því stopult og stundum lítið.
Amma hafði einna mest og nánust samskipti við Ragnheiði, systurina sem fluttist vestur um haf. Þær skrifuðust á alla tíð og við, afkomendur þeirra, höfum síðan haldið bréfaskiptunum áfram. Í sumar er ég einmitt að fara með fjölskyldunni til Bandaríkjanna og Kanada, m.a. til að heimsækja afkomendur Ragnheiðar og fjölskyldur þeirra. Það verður óskaplega gaman, það er ég viss um. Kannski verður næsta skref að heimsækja afkomendur hinna ömmusystranna minna? Sumir búa hérna í bænum en ég þekki þá ekki einu sinni í sjón ...