Góður Sölvi

Mér fannst nýr spjallþáttur Sölva Tryggvasonar á Skjá einum fara vel af stað. Sölvi náði góðu sambandi við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og það sem hún hafði að segja var mjög athyglisvert. Ég gerði mér enga grein fyrir að hún og fjölskylda hennar hefðu orðið svona illa fyrir barðinu á fólki sem hefur ekkert betra að gera en spinna gróusögur og kasta skít. En auðvitað hefði maður mátt vita það. Þetta er kona sem stendur í sviðsljósinu og því miður er enginn skortur á skítseiðum í þjóðfélaginu. Ég vissi heldur ekki um veikindi dóttur hennar. Svona lifir maður í vernduðum heimi. Líklega er þetta af því að ég les ekki skítkastsblogg og er ekki félagi í neinum kjaftaklúbbi.

Þorgerður nefndi einmitt að það væru ekki bara stjórnmálamennirnir og auðmennirnir sem þyrftu að taka sig á og gerbreyta um aðferðir í takt við kröfurnar sem óma þessa dagana. Fjölmiðlarnir bæru líka þunga ábyrgð og ekki síður almenningur. Fólkið sem skreytir blogg sitt stóryrðum og níði, jafnvel í skjóli nafnleyndar, smjattar á lygum og sögusögnum í saumaklúbbum, hrópar ókvæðisorð og blótsyrði að ráðamönnum og skemmir jafnvel eigur annarra verður að hætta því og líta í eigin barm. Líka við hin, meðaljónarnir í landinu. Við þurfum að gæta vel að því hvað við segjum og gerum. Annars er hætt við að neikvæðni, dónaskapur, rætni, ofbeldi og hvers kyns bestíalítet verði eitt helsta einkenni hins nýja Íslands, sem svo margir sjá nú í hillingum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband