Sá yðar sem syndlaus er ...

Enn er málefnafátækt fólk að agnúast út í Árna Johnsen. Mann sem var á sínum tíma dæmdur og afplánaði sína refsingu. Hann var ekki náðaður, eins og sumir halda enn fram í fávisku sinni, heldur hlaut hann uppreist æru. Það er allt annar handleggur og slíka uppreist hafa margir hlotið í áranna rás.

En af hverju verður Árni enn fyrir árásum? Hvers vegna er andstæðingum hans svona meinilla við að hann nái góðum árangri í prófkjöri? Og af hverju fær maðurinn alltaf svona mörg atkvæði fyrst hann er svona ómögulegur?

Skyldi skipta einhverju máli í hvaða flokki hann er? Nei, ég er alveg viss um að syndleysingjarnir væru alveg jafn vondir við Árna ef hann væri í flokknum þeirra.

Eða hvað?

Mér er sagt að 62 þingmenn sjáist vart í kjördæmi sínu nema ef til vill rétt fyrir kosningar. Sá sextugasti og þriðji sé hins vegar alltaf á ferðinni. Hann fylgist gjörla með því sem íbúar kjördæmis hans, og raunar landsmenn allir, eru að skrifa og skrafa um hverju sinni. Hann bankar upp á hjá fólki, flokkssystkinum sínum og hatrömmum andstæðingum, sumar sem vetur og spyr hvernig fólkið hafi það, hvað brenni helst á því og hvaða mál það telji að séu brýnust fyrir hag almennings og landsins alls.

Þessi maður heitir Árni Johnsen. Ég þekki hann ekki og hef aldrei hitt hann, bý ekki í kjördæminu hans og hef ekki lagt mig í líma við að fylgjast með störfum hans, en þetta er mér sagt.

Væri ekki ráð að mykjudreifarar færu að gera hreint í eigin ranni í stað þess að hreyta ónotum í mann sem virðist hafa tekið til í sál sinni og lætur sig hag almennings einhverju varða en segist ekki bara gera það? Auk þess trúi ég ekki öðru en að skítkast í garð Árna Johnsen hljóti að vera komið úr tísku fyrir löngu og því tæpast vel til atkvæðasöfnunar fallið. Málefnasnauðir menn og konur ættu kannski frekar að snúa sér að því að sannfæra meðaljóna og pólitíska eymingja eins og mig um það af hverju umdeilt stjórnlagaþing, umdeildar stjórnarskrárbreytingar, umdeildar breytingar á kosningalögum og umdeilt seðlabankafrumvarp - og í kjölfar þess mannaráðning sem e.t.v. brýtur í bága við ákvæði stjórnarskrár - eru mikilvægari mál en hagur okkar meðaljónanna og fyrirtækjanna sem við vinnum hjá - þ.e.a.s. þeir okkar sem ekki hafa misst vinnuna og/eða ævisparnaðinn. Svo mikilvæg að það er ekki hægt að halda þingfundi ef þau eru ekki á dagskrá.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband