18.3.2009 | 09:40
Matur og lýðræði
Svo stjórnlagaþing gæti kostað 2 milljarða og jafnvel meira en það. Og hvað er þetta stjórnlagaþing for noget? Botna ekkert í þessu fyrirbæri þó að ég telji mig hafa reynt. Veit bara að mér finnst, af einhverjum ástæðum, ekkert sérlega góð lykt af því. Hvað þá verðmiðanum.
Lýðræðið kostar sitt, segja sumir. Jamm og já. En það gerir maturinn líka. Og ef þessum tveimur milljörðum væri nú deilt niður á mannskapinn í landinu, í stað þess að eyða þeim í eitthvað sem enginn veit hvaða árangur ber - ef nokkurn - fengi hvert mannsbarn að líkindum nokkra þúsundkalla í sinn hlut.
Kannski er stjórnlagaþing hið besta mál. En er þetta ekki of dýr tilraun eins og staðan er núna? Ég held að lýðræðið muni þrauka án stjórnlagaþings. Það hefur gert það hingað til. Og ég held líka, í einfeldni minni, að almenningur á Íslandi þurfi meira á þúsundköllum að halda í augnablikinu en háleitum hugsjónum. Því miður.