Skemmtilegar kenningar

Ég heyrði athyglisverða kenningu í gær.

Hún er sú að það sé engin tilviljun að fréttirnar um háa styrki til Sjálfstæðisflokksins berist einmitt núna. Og að það séu sjálfstæðismenn sjálfir sem standi fyrir því.

Sjálfstæðismenn hafi engan áhuga á að vinna kosningarnar núna. Þeir vilji tapa þeim. Gjarnan nógu stórt til að það sé fullkomlega tryggt að þeir sitji ekki í næstu ríkisstjórn. Þeir geti þá safnað kröftum, haldið endurnýjuninni áfram og veitt nýjum formanni tækifæri til að sjóast.

Vinstri stjórn popúlistaflokkanna verði nefnilega aldrei langlíf. Hún standi frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og geti ekki beitt lýðskrumi nema í takmarkaðan tíma til að slá ryki í augu fólks. Þá sé "verkstjórinn" svo erfiður í samstarfi þegar alvara lífsins tekur við að annaðhvort hann eða samráðherrarnir muni gefast upp fljótlega, auk þess sem stjóri sé nokkuð farinn að lýjast eftir langa þingsetu.

Vinstri stjórn sé spáð 12-18 mánuðum á valdastólum. Meira að segja forsetinn geti ekki lengt líf hennar þegar allt verði komið í hönk.

Kenning þessi byggist á því að eftir 12-18 mánuði verði staða Sjálfstæðisflokksins gjörbreytt í augum almennings, sem sé jafnan fljótur að gleyma. Sjálfstæðisflokkurinn verði sá flokkur sem búinn sé að gera hreint. Hreinsa til. Viðurkenna mistök sín. Endurnýjast. Hinir flokkarnir verði ímynd stöðnunar, gamaldags úrræða, skrifræðis og öldungaræðis. Þeir verði löngu búinir að missa traust almennings, annaðhvort með því að grípa til vitlausra aðgerða eða með aðgerðaleysi.

Þá verði kosningar. Þar muni sjálfstæðismenn fara með sigur af hólmi.

Merkileg kenning. Áreiðanlega tóm tjara, en skemmtileg samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Já Helgi þetta er döpur kenning.  Sjálfstæðismenn tapa kosningu, vinstri menn klúðra landsstjórn og það verður að kjósa upp á nýtt.  Ekki verður auðveldara fyrir kjósandann að finna stað fyrir X-ið þá....nógu erfitt er það núna !

kv.

ES

Eyjólfur Sturlaugsson, 11.4.2009 kl. 23:18

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband