Vammlausa liðið

Alveg er ég gáttaður á því hversu margir virðast hafa mikinn tíma til að blogga þessa dagana. Sjálfur fæ ég oft ekki tækifæri til slíks dögum saman.

Það veldur mér líka furðu hversu margir bloggaranna virðast vammlausir með öllu. Í skrifum þeirra er fátt að finna nema skítkast. Nóg er af grjótinu á Íslandi, svo mikið er víst, en ég vissi ekki að glerhúsin væri svona mörg. Og þeir sem eru í tísku hverju sinni mega varla æmta eða skræmta, þá eru mykjupennarnir komnir á loft og byrjaðir að andskotast á bloggsíðunum. Heiftin er slík að engu tali tekur. Og orðalagið svo sóðalegt að hverjum heilvita manni blöskrar.

Lengi vel var Davíð Oddsson í tísku. En nú er hann hættur og gerir fátt krassandi, enda ekki landsfundur á hverjum degi. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn handhægastur, enda fátt að gerast í heimi fréttanna nema óeirðir austur í Tælandi og jarðskjálftar suður á Ítalíu og gúrkutínslumenn í hópi fréttamanna því ófærir um að komast út úr gróðurhúsi íhaldsins, jafnvel þótt víða sé að finna vöxtulegri gúrkur en þar.

Hinir vammlausu eru fljótir að skynja hvern er í tísku að hata hverju sinni. Þeir minna mig á rotturnar í kvæði Davíðs Stefánssonar, sem sífellt naga og naga. Í þessum hópi eru ríkir menn og snauðir. Alls kyns fólk. Þröngsýnir hrægammar, sem glaðbeittir hnita hringi yfir þeim sem sleginn hefur verið niður. Misgreindir eru gammarnir að sönnu, en allir eru þeir þó svo þröngsýnir og áhrifagjarnir að þeir færa þeir sig ekki úr stað meðan hægt er að kroppa í þann sem liggur. Þeir sjá ekki þá sem líka eru að falli komnir en fela sig í skóginum.

Hvað gera hrægammarnir og rotturnar þegar leiðtogar þeirra og skósveinarnir neyðast til að koma út úr skóginum og hníga niður í sólinni? Það verður spennandi að sjá.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband