Enginn hagfræðingur

Ég er enginn hagfræðingur, en er það ekki eins og að pissa í skóinn sinn að ætla að lækka laun opinberra starfsmanna? Minnka þá ekki skatttekjur ríkisins og sveitarfélaganna um leið? Ég hélt að ríkið væri ekki ofalið þessa dagana, hvað þá sveitarfélögin. Já, og lífeyrissjóðirnir - ekki eru þeir feitir um þessar mundir.

Ég veit alveg hvernig ég brygðist við slíkri launalækkun ofan á verðhækkanir, lánahækkanir og það allt saman. Ég flyttist til útlanda við fyrsta tækifæri með fjölskyldu mína. Ef ég kemst ekki lengur af á Íslandi er það eina ráðið. Ættjarðarást er eflaust kúl, einkum á þessum síðustu og verstu, en hún brauðfæðir ekki fjölskyldu mína.

Ég er heldur ekki sannfærður um að ég fengi launalækkunina nokkurn tímann til baka þó að betur færi að ára. Einhvern veginn hefur ríkið alltaf verið tregt í taumi þegar kauphækkanir eru annars vegar og jafnvel gengið á bak orða sinna í þeim efnum.

Er það ekki líka skópisserí að ætla að hækka fjármagnstekjuskatt? Hvað gerist þá? Fólk dregur úr sparnaði. Varla vilja menn stuðla að því?

Og ég er nógu gamall til að muna eftir fagnaðarlátunum þegar eignaskatturinn var loksins afnuminn á sínum tíma.

Væri ekki nær að koma því þannig fyrir að skuldir fólks lækkuðu, fyrirtæki og einstaklingar losnuðu við bróðurpartinn af vaxtabyrðinni og fyndu hjá sér hvöt til að vinna betur og framleiða meira? Um leið fengju ríki og sveitarfélög auknar tekjur af þessum fyrirtækjum og einstaklingum.

En, eins og ég segi, ég er enginn hagfræðingur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband