Lífmissir og líftaka

Ég var að ljúka við nýjustu skáldsögu eins þekktasta og vinsælasta sakamálahöfundar okkar. Frábær bók.

Aðeins tvennt stakk í augu. Á einum stað talar höfundur um að persóna hafi "misst líf sitt". Þetta hef ég hvorki heyrt né séð fyrr. Hins vegar liggur það fyrir okkur öllum að týna lífi, hverfa yfir móðuna miklu, deyja eða bíða bana - svo dæmi séu tekin.

Á mörgum stöðum notar höfundurinn svo orðalagið "að taka líf sitt". Það kemur mér mjög á óvart að sjá þennan afar ritfæra mann falla í þessa enskugryfju - ekki bara einu sinni, heldur margoft. Á íslensku sviptir fólk sig lífi, styttir sér aldur eða fellur fyrir eigin hendi - svo nokkuð sé nefnt. Við þurfum ekki á enskunni að halda.

Ég vona að ólánssamar persónur í verkum höfundarins muni héðan í frá velja íslenskari leið en að missa líf sitt eða taka það. Kannski er ég bara svona mikill þjóðernissinni inn við beinið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband