Vondar auglýsingar

Ýmsir fara mikinn þessa dagana og býsnast yfir auglýsingum í blöðum, þar sem hópur fólks heldur hinu og þessu fram - sumt er sjálfsagt satt, annað logið - en enginn verður þó fyrir persónulegu skítkasti.

Þess vegna varð ég hissa þegar ég sá því haldið fram að svona svæsnar auglýsingar væru nýmæli í aðdraganda kosninga.

Eru menn búnir að gleyma heilsíðuauglýsingunni fyrir síðustu kosningar, þar sem "vinur litla mannsins," maðurinn í víggirtu glæsivillunni í heiðinni fyrir norðan (sem einhver sagði mér að væri bara gestabústaður) hvatti fólk (í öðru kjördæmi!) til að strika yfir tiltekinn þingmann og fór um hann ófögrum orðum?

Það versta var að sumir litlu mannanna fóru að þessum tilmælum auðjöfursins misskilda og hjartagóða, sem þarna notaði auðæfi sín og völd til að koma höggi á mann, sem stóð við sínar skoðanir og hlýddi sannfæringu sinni - hvað svo sem fólki finnst um skoðanir þingmannsins og ákvarðanir. Það er allt annað mál.

Mér er mishlýtt til stjórnmálamanna og óska ýmsum þeirra óteljandi yfirstrikana, en ég er bara lítill maður og get ekki birt heilsíðuauglýsingu í dagblöðum þar sem ég hvet fólk til að hafna þessu fólki.

Auglýsingin núna er ósköp meinlaus, finnst mér. Það er a.m.k. ekki verið að níða af neinum skóinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband