23.4.2009 | 14:11
Á móti
Árum saman hafa þingmenn Vinstri græns gengið undir gælunöfnunum "hann Steingrímur á móti", "hún Kolla á móti" o.s.frv. vegna þess hvað þeir hafa verið duglegir í andstöðu sinni við mál sem ríkisstjórn hverju sinni hefur lagt áherslu á.
Nú hefur Vinstri grænu tekist að fá drjúgan hluta þjóðarinnar til að vera með sér á móti. Það var svo sem ekki erfitt verk. Hreyfingin hefur fengið til liðs við sig fólk sem mun kjósa listann, ekki vegna fylgis við málstaðinn, sem er trúlega takmarkað eins og fyrri daginn, heldur vegna andstöðu við fyrri ríkisstjórnir, einkum Sjálfstæðisflokkinn.
Svona fylgi er rótlaust, ótraust og afskaplega vanþakklátt. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum, m.a. í Kanada. Það verður fljótt að snúa baki við Vinstri grænu ef hreyfingin heldur illa á spöðunum eftir kosningar. Ætli VG að halda óánægjufylginu má hreyfingin ekki gera minnstu mistök.
Ég hef ekki heyrt einn einasta Samfylkingarmann þræta fyrir að fylgið við þá samsteypu sé fyrst og fremst persónufylgi Jóhönnu Sigurðardóttur. Þegar enginn landsfaðir er til staðar snúa þessi atkvæði sér til hennar ömmu, sem leiðir, verndar og er svo góð. Hvíslið á götunni, um að Jóhanna muni draga sig í hlé við fyrsta tækifæri eftir kosningar, verður æ háværara. Og hver tekur þá við samsteypunni? Gamall foringi? Nýr? Víst er að sá verður a.m.k. umdeildari en Jóhanna. Þegar amma hverfur á braut leitar þetta fólk sér að nýrri, hlýrri hönd, sem það treystir til að leiða sig í rétta átt. Og því er nokk sama hvaða stjórnmálaafli sú hönd tilheyrir. Það hefur sagan sýnt. Höndin gæti því allt eins orðið blá.
Sjálfur ætla ég að kjósa til næstu fjögurra ára. Ég er að hugsa um að kjósa það fólk sem ég treysti best til að leiða þjóðina úr þrengingunum áður en fjórðungur hennar flytur úr landi. Ég ætla ekki að kjósa á móti fortíðinni, heldur fyrir framtíðina. Enda bera býsna margir ábyrgðina þegar fortíðin er annars vegar - ekki bara þeir seinheppnu.
Gárungarnir segja að forsetinn sé þegar búinn að klambra saman óskastjórninni sinni. En svo illum tungum trúi ég nú ekki.