Skýring á tilnefningum

Gauti Kristmannsson, formaður Bandalags þýðenda og túlka, var snöggur að senda mér línu eftir bloggfærslu mína um þýðingaverðlaunin þar sem hann skýrði tilnefningaferlið fyrir mér. Hafi hann bestu þakkir fyrir.

Það eru sem sagt þrír einstaklingar, dómnefndarmennirnir, sem tilnefna nokkrar bækur hverju sinni og velja svo eina bók af þeim sem þeir sjálfir tilnefndu. Að sögn Gauta er þetta algengt fyrirkomulag. Stjórn BÞT velur dómnefndarmennina.

Ekki ætla ég að gera lítið úr hæf(n)i dómnefndarinnar eða því þrekvirki að lesa allar þessar þýðingar en mér finnst fyrirkomulagið engu að síður óeðlilegt. Hér áður fyrr tilnefndu þýðendur sjálfir bækur til þýðingaverðlaunanna, en þátttakan mun hafa verið lítil (að dómi stjórnar BÞT, líklega) og þess vegna var þessi mikla breyting gerð á fyrirkomulaginu.

Mér finnst þýðendur þar með hafa gert lítið úr sjálfum sér og störfum sínum, ég get ekki að því gert. Í fyrsta lagi missa verðlaunin ákveðinn virðingarsess ef þýðendur nenna ekki að tilnefna fólk úr sínum hópi til þeirra. Í öðru lagi setur stjórn félagsins ofan ef hún treystir ekki félagsmönnum til að tilnefna þýðingar/þýðendur og kýs fremur að hafa hönd í bagga á þennan hátt. Í þriðja lagi opnast dyr, þegar dómnefnd er svona valdamikil og fámenn, fyrir óæskileg og óeðlilega mikil áhrif tískustrauma og -sveiflna í þýðingafræðum, sem dómnefndarmenn kunna að aðhyllast hverju sinni. Og er þá aðeins fátt eitt nefnt.

Ég vona að þetta mál verði rætt á aðalfundi BÞT í maí, sem ég hef því miður ekki tök á að sækja en mun fylgjast með eftir mætti. Líklega (vonandi) hefur hinn almenni félagsmaður framselt valdið til að tilnefna þýðendur í hendur stjórnarinnar á aðalfundi hér um árið og þó að stjórnin hafi án efa farið vel með þetta vald finnst mér óeðlilegt að hún hafi það.

Að lokum tek ég fram að ég er með þessum orðum ekki að kasta rýrð á störf núverandi dómnefndar. Síður en svo. Og ég óska Hjörleifi enn og aftur til hamingju með verðlaunin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband