24.4.2009 | 08:44
Evran
Í Fréttablaðinu í dag vakti athygli mína lítil grein eftir mann nokkurn, sem starfar við ráðgjöf hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og er fyrrverandi fjármálaráðherra Ekvadors. Maðurinn segir að Íslendingar þurfi ekkert leyfi eða samþykki frá Evrópusambandinu til að taka upp evru. Evran sé leið út úr vandræðum okkar og hana þurfi að taka upp sem allra fyrst. Krónan sé okkar akkilesarhæll í baráttunni við kreppuna. Færir hann fyrir máli sínu fyllilega haldbær rök, að því er leikmaður eins og ég fær best séð.
Þessi maður ætti að vita hvað hann syngur í þessum efnum. Þegar hann var fjármálaráðherra Ekvadors tók ríkið upp bandaríkjadal í stað gjaldmiðilsins síns, sem þá var ónýtur. Nú er hann ráðgjafi hjá AGS.
Í blaðinu var önnur grein, sýnu undarlegri. Þar var á ferð Hallgrímur Helgason, listamaður. Honum er mikið í mun að það komi skýrt fram að hann sé ekki sammála Benedikt Jóhannessyni nema um Evrópusambandið. Þótti mér það kyndugt. Sammála.is snýst ekki um neitt annað og óþarfi að tyggja það ofan í landsmenn.
Hitt þótti mér merkilegra að Hallgrímur virðist viðurkenna fúslega að hann ætli að kjósa fortíðina í kosningunum á morgun. Mér finnst þetta bera vott um aðdáunarvert hugrekki, sem ég vissi ekki að Hallgrímur ætti til. Hann segir nefnilega um þá Benedikt að annari ætli að kjósa fortíðina, hinn framtíðina. Benedikt hefur lýst því yfir að hann hyggist kjósa framtíðina þannig að fortíðin hlýtur að vera val Hallgríms. Fortíðin er í mínum huga stöðnun, forsjárhyggja, háir skattar, ríkisrekstur og alls kyns höft og fínerí. Slíkur ófögnuður er best geymdur í Íslandssögu 20. aldar.