Það sem við vildum sagt hafa

Ágæta fólk.

Ég biðst afsökunar á því sem miður hefur farið síðustu árin. Biðst afsökunar á því sem stjórn fyrirtækisins míns hefur gert af sér á undanförnum árum. Biðst forláts á því að farið skyldi svona illa með ykkur.

Um leið vil ég þó taka fram að ekkert af þessu er mér að kenna. Það voru hinir strákarnir og stelpurnar í stjórninni sem gerðu þetta. Ég ber enga abyrgð.

Ég biðst afsökunar fyrir hönd flónanna sem sátu með mér í stjórn. Sjálf gerði ég ekki neitt af mér - frekar en venjulega. Ég er nefnilega góð kona og fólk treystir mér.

(Er það ekki annars? Virkar þessi taktík ekki örugglega ennþá?)

---

Gott fólk.

Ég vinn alveg rosa erfiða vinnu. Það er alveg rosa mikið að gera hjá mér og ég er bara alveg að krebera á þessu. En ég má til. Ég vinn við að bjarga þjóðinni og af því að ég hef breitt bak og bý yfir ótakmarkaðri sjálfsvorkunn þá ætti dæmið að ganga upp.

Munið bara hvað ég er í erfiðu starfi. Það er ekkert grín að vera í þessu djobbi. Þetta er skítadjobb, en einhver verður að sinna því. Mig langaði ekkert í þetta - jafnvel þótt völdin séu dálítil og launin nokkuð góð.

Engu skiptir þótt starf mitt sé til bölvunar, í besta falli árangurslaust. Aðalatriðið er að þið munið hvað ég hef mikið að gera og hvað vinnan mín er erfið, slítandi og vanþakklát.

(Bar ég mig ekki örugglega nógu aumlega til að fá helling af samúð - svo ég geti beitt hnífnum á lýðinn?)

---

Sameiningartákn? Nei, ég er ekkert sameiningartákn. Það hefur aldrei verið talað um að ég ætti að vera sameiningartákn. Það var ekkert á það minnst í ráðningarsamningnum.

Við eigum fullt af sameiningartáknum. Þorskinn, lóuna, West Ham United, íslenska hestinn, ábendingarfornöfnin, kvaðratrótina, rattus norvegicus ... you name it.

(Samt vildi ég að ég væri pínulítið vinsælli. Bara pínu-pínulítið).

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband