Óvitar

Jæja, þá dreif ég mig loksins á Óvita í kvöld ásamt yngri syni mínum. Ætlunin var að sjá leikritið um síðustu helgi en þá fékk piltur gubbupest og við feðgarnir vorum því heima meðan aðrir í fjölskyldunni brugðu sér í leikhús.

Þetta var bráðskemmtileg sýning. Börnin standa sig geysilega vel - voru alveg frábær - en ekki heyrði ég þó hvert orð sem þau sögðu eða sungu. Fullorðnu leikararnir eru afskaplega skemmtilegir, Guðjón Davíð eins og sniðinn í hlutverk Guðmundar og Þráinn Karlsson óborganlegur í einu minnsta og óvenjulegasta hlutverki sínu á ferlinum.

Heildaryfirbragð sýningarinnar er ákaflega vel heppnað og varla hægt að ímynda sér að betur hefði verið hægt að gera. Smágaldrar setja nokkurn svip á sýninguna og vöktu mikla kátínu og umhugsun hjá syni mínum. Tónlist Jóns Ólafssonar rennur ljúflega í gegn en það vakti athygli mína þegar ég var á heimleið að ekki eitt einasta lag hafði náð að festast í huga mér. Ég veit ekki hvað það er við lög Jóns, mér finnst eins og þau vanti alltaf herslumuninn til að teljast virkilega góð. En þessi tónlist var fínn undirleikur við sýninguna og það sem ég heyrði af textunum var prýðilegt.

Þetta var sem sagt í alla staði hin besta skemmtun. Vel og fagmannlega unnin sýning sem allir aðstandendur hennar geta verið hæstánægðir með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

það er nánast alltaf gaman í leikhúsi og skemmtilegast að vera með börnum. rífandi uppgangur hjá l.a. og ekkert nema gaman að því.

þú verður bara að kaupa þér plötuna.... sía inn lögin.

setur hana á jólagjafalistann..

annars er snorri sturlu að spila rush á rás 2. snilld.

arnar valgeirsson, 13.10.2007 kl. 23:41

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband