Salt og/eða sandur

Stundum er eins og Akureyringar séu fastir í gamla tímanum, líklega á sjöunda eða áttunda áratugnum þegar SÍS og KEA réðu ríkjum í bænum og templarar voru stórtækir bíó- og hótelrekendur.

Umræðan um hálkuvarnir í bænum er eldgömul og hefur lítið breyst í áranna rás. "Salt" er þvílíkt hryllingsorð í eyrum sumra bæjarbúa - og brottfluttra líka, því að þeir láta stundum hærra en heimamenn - að halda mætti að um kjarnorkuúrgang væri að ræða. Menn gleyma því stundum að sandur fýkur og stíflar niðurföll. Og salt skemmir ekki skó eða bíla ef vel er um hvort tveggja hugsað. Fáir kunna reyndar betur að hugsa um bílana sína en Akureyringar.

Í Mogganum í dag er klausa eftir framhaldsskólakennara á Akureyri þar sem hann telur að betri sandur og bætt götuhreinsun yrðu mjög til bóta. Ég er hjartanlega sammála. Hins vegar er ég ósammála honum um að sandaustur án salts yrði hér eftir, sem hingað til, einhvers konar allra meina bót.

Akureyri hefur stækkað mjög á síðustu árum. Þungaflutningar til bæjarins og um bæinn hafa aukist óskaplega. Gríðarstórir vörubílar, hlaðnir grjóti, möl eða sandi, eru á ferðinni um allan bæ. Þegar sjóflutningar lögðust af jukust landflutningar að sama skapi og þeir bílar eru heldur engin smásmíði. Halda menn að þetta hafi ekkert að segja þegar svifrykið er annars vegar? Eigandi dekkjaverkstæðis hér í bæ heldur því fram að malbikið sé lélegra nú en áður fyrr og það sé ein orsök svifryksins. Ég hallast að því að hann hafi talsvert til síns máls.

Það er ekki sandurinn, sem veldur svifrykinu, heldur ökutækin. Og til að draga úr mengun af völdum ökutækja er langbesta leiðin sú að nota strætisvagna, hjóla eða ganga. Þannig getur almenningur lagt sitt af mörkum. Það þýðir lítið að tuða yfir svifrykinu og halda bara áfram að fara allra sinna ferða á bíl. Enn eru vegalengdir á Akureyri ekki svo óyfirstíganlegar að þær afsaki hömlulausa bílanotkun bæjarbúa. Meira að segja ógnarhátt og síhækkandi eldsneytisverð virðist ekki megna að koma í veg fyrir að Akureyringar fari milli húsa á bíl, hér eftir sem hingað til. Og svo í ræktina í dagslok - auðvitað á bílnum!

En til að strætó komist leiðar sinnar þurfa leiðir að vera greiðar. Og sandurinn nægir bara ekki lengur til þess. Því miður. Ég held að það nægi ekki að fá fína kústa til að sópa göturnar. Það þarf hugarfarsbreytingu. Og þangað til hún á sér stað sé ég ekki annan kost en að halda áfram að setja salt í sandinn en fara eins sparlega með hvort tveggja og kostur er.

Það er ekki sanngjarnt að gera lítið úr viðleitni Akureyrarbæjar til að minnka svifryk, hvað þá að kalla hana hlægilega. Akureyarbær steig stórt skref í rétta átt þegar hann fór að bjóða upp á ókeypis strætisvagnaferðir. En til þess að það skref skili sér þurfa Akureyringar að nota strætisvagnana. Líka framhaldsskólakennarar.

 


Lagt við hlustir í heimsborginni

Alltaf finnst mér gaman að heimsækja ríki Engla og Saxa, ekki síst sjálfa höfuðborg breska heimsveldisins. Þar var ég um helgina á ráðstefnu um norrænar þýðingar, sem var að mörgu leyti ágæt. Ekki áttum við Íslendingar marga fulltrúa þar en þó leit Sigurjón Sigurðsson inn og einnig var stuttlega fjallað um viðhorf Halldórs Laxness til þýðinga á verkum sínum og um vandamál við þýðingu dróttkvæða. Skemmtilegust var umfjöllun reynds og virts ensks þýðanda, Geoffrey Samuelsson-Brown, um það sem þýðendur eiga að gera og það sem þeir mega ekki gera. Viðhorf bókaútgefenda til norrænna bókmennta var líka mjög forvitnilegt, sem og fyrirlestur um misjafnlega vel heppnaðar þýðingar á verkum Ibsens.

Á föstudagskvöldið leit ég inn á Borderline í Sóhó, einn minnsta hljómleikasal sem ég hef heimsótt, og hlustaði á Matt Schofield Trio spila stórkostlega blöndu af djassi, blús, fönki og rokki. Schofield er ungur að árum en hefur þegar getið sér orð sem einn af mögnuðustu gítarleikurum samtímans og félagar hans eru ekki af verri endanum heldur. Trymbillinn bráðsnjall og orgelleikarinn, Jonny Henderson, lék sér að því að spila bassann með vinstri og taka sóló með hægri. Sannarlega eftirminnileg kvöldstund og ég á áreiðanlega eftir að fylgjast með Schofield og félögum í framtíðinni.

Á sunnudagskvöldið fór ég í London Palladium-leikhúsið, sem er stórt, gamalt og gullfallegt, og hlustaði á írsku þjóðlagapoppsveitina Clannad. Ég hef aldrei gefið henni mikinn gaum en var þó á sínum tíma mjög hrifinn af laginu "Closer To Your Heart". Clannad brást ekki vonum mínum og flutti lagið undir lokin. Brian Kennedy söng með þeim lagið "In A Lifetime" og gerði það afar vel.

Tónleikarnir voru miklu betri og skemmtilegri en ég átti von á, því að sannast sagna var ég ofurlítið efins um að tónlistin væri að mínu skapi og e.t.v. fullróleg fyrir minn smekk. Þetta reyndust að sjálfsögðu fordómar af verstu sort. Fjórmenningunum til fulltingis var fjöldi snjallra hljóðfæraleikara og söngvara og tónleikarnir voru tvímælalaust í hópi þeirra betri sem ég hef sótt um dagana. Ég held að engin hljómsveit blandi jafn snilldarlega saman keltneskri þjóðlagahefð og engilsaxnesku léttrokki. Húrra fyrir Clannad.

Á heimleiðinni varð ég fyrir nokkrum töfum vegna slæms veðurs (sem á Íslandi teldist vart meira en skítaveður í meðallagi), en komst þó á Stansted vel fyrir brottfarartíma. Ekki voru allir svo heppnir og af tali manna heyrði ég að sumir höfðu lent í verulegum ævintýrum á leiðinni á flugvöllinn. Þakklátur varð ég að hafa ekki lent í þeim hópi.

Er þegar farinn að hlakka til næstu ferðar, hvenær sem hún verður.


Bandafylkin

Það eru engin fylki í Bandaríkjunum. Bara ríki. Þess vegna heitir landið Bandaríkin en ekki Bandafylkin.
mbl.is Leikar skýrast í forsetavali demókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamat

Merkilegt hvað fréttamat fjölmiðla er misjafnt. Á Stöð 2 var fyrirgefning auðmanns gegn þrjátíu milljón króna fjárútlátum seinheppins sektarlambs aðalfréttin - og drottningarviðtal í kjölfarið - en á þetta var ekki minnst á RÚV, nema það hafi farið framhjá mér - sem vel getur verið.

Miklir öðlingar eru nú annars íslensku auðmennirnir. Reiðubúnir að gleyma og fyrirgefa smælingjunum glópskuna fyrir hálft orð. Glóparnir þurfa aðeins að reiða fram nokkra tugi milljóna og þá er málið úr sögunni.

Megi auðmönnum fjölga sem mest. Þá eygja hinir smáu loksins von um að öðlast eilífa sæluvist ... og er ekki margfalt gjaldþrot ósköp lítið gjald fyrir slíka upphefð og allsherjarfyrirgefningu?

Það hebbði ég nú haldið.


Meirihlutinn tryggður

Þetta væri alveg tilvalið að gera í Reykjavík, þar sem meirihlutinn er svo naumur ...


mbl.is Borgarstjórinn klónaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími til kominn

Ég óska Hjálpræðishernum til hamingju með að hafa hlotið samfélagsverðlaunin. Það var kominn tími til að Hernum yrði almennilegur sómi sýndur. Fórnfúsara og göfugra starf en þar er unnið er varla hægt að hugsa sér og ekki ber mikið á Hernum í fjölmiðlum. Liðsmenn Hersins berja sér ekki á brjóst og miklast af afrekum sínum.

Börnin mín tóku þátt í barnastarfi Hjálpræðishersins á Akureyri þegar þau voru lítil. Þar var þeim sýnd virðing, alúð og hlýja.

Hafi Hjálpræðisherinn þökk fyrir allt sitt góða starf á undanförnum áratugum. Hann er vel að þessum verðlaunum kominn, betur en nokkur annar sem ég veit um. Vonandi njótum við krafta þessarar merkilegu hreyfingar um alla framtíð.


Engin lygi

Þessi fyrirsögn, "Ekki sama Jón og séra Jón", blasti við á forsíðu Tímans fyrir mörgum árum. Ekki man ég hvers konar misrétti var þarna á ferð, sem Tíminn taldi nauðsynlegt að vekja athygli á, en hitt man ég að á baksíðu sama tölublaðs var birtur framboðslisti Framsóknarflokksins í Vesturlandskjördæmi. Þar var séra Jón, líklega presturinn í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, nokkuð ofarlega á lista en nálægt botninum sat einhver óbreyttur Jón, sem ég kann ekki frekari skil á. Þarna sannaði Tíminn eftirminnilega að það er ekki sama hvort menn heita bara Jón eða eru sérar. Smile


mbl.is Ekki sama Jón og séra Jón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei í Evróvisjón

bcrSpaugstofumenn kyrjuðu gömul evróvisjónlög í alls kyns útgáfum í kvöld, en þó leyndust þar inni á milli lög sem aldrei fóru í keppnina. Eins og margir aðrir virðast Spaugstofumenn á því að lögin Manana með skosku hljómsveitinni Bay City Rollers og How Do You Do með hollenska dúettinum Mouth & Macneal hafi tekið þátt í Söngvakeppni sjónvarpsstöðva. Svo var ekki. Þetta sómafólk kom allt fram í íslenska sjónvarpinu á sínum tíma í einhverjum tónlistarskemmtiþætti, en þátturinn sá átti ekkert skylt við Evrópusöngvakeppnina. Ekki man ég betur en strákarnir í Slade hafi sungið og spilað í sama þætti. Þetta hefur líklega verið árið 1972 eða þar um bil og í kjölfarið urðu þessi lög, Manana og How Do You Do, mjög vinsæl hér á landi.

Hér er How Do You Do: www.youtube.com/watch?v=2skBGdyoMkk

Bay City Rollers fóru aldrei í Evróvisjón en það gerðu Mouth og Macneal hins vegar. Það var árið 1974 og lagið hét I See A Star.

 


Óstjórnlega spennandi

Í kringum flest er hægt að búa til spennu, ég segi nú ekki annað. Er ekki nóg af henni í þjóðfélagi okkar þó að svona vitleysa sé ekki mögnuð upp?
mbl.is Mikil spenna fyrir „hreindýrahappdrætti"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætterni?

Skyldi Sarkisian þessi vera frændi Cherilyn Sarkisian (Cher)?
mbl.is Sarkisian sigraði í forsetakosningum í Armeníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband