Stjarna fallin frá

Ben Húr, Mikkelangeló og Móses ... ekki amalegt að hafa slík hlutverk á ferilskránni sinni! Charlton Heston var umdeildur maður á síðari árum, en þau mál snertu ekki leiklist. Ekki fannst öllum hann góður leikari, en hann var stjarna engu að síður. Maðurinn þurfti ekki annað en birtast á hvíta tjaldinu, þá átti hann myndina.

Það er sjónarsviptir að þessum svipmikla stórleikara, sem var af gamla skólanum og skammaðist sín ekkert fyrir það.

 


mbl.is Charlton Heston látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarástand!

Ef marka má lesendadálka Morgunblaðsins á morgun, sunnudag, er það ekki dýrtíðin sem er helsta ógnin við landsmenn um þessar mundir. Nei, hvorki eldsneytisverðið, verðtryggingin, vextirnir né íslenska krónan - ekki einu sinni fall hlutabréfanna. Það sem veldur Íslendingum mestum áhyggjum þessa dagana - og heilagri bræði, raunar - eru breytingarnar sem gerðar hafa verið á einum ástælasta þjóðarréttinum okkar, mjólkurkexinu.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins eru hvorki fleiri né færri en þrjú lesendabréf um þetta efni og er álit manna nokkurn veginn þetta: Mjólkurkexið frá Frón er miklu verra en það var áður og það er óhæfa. Nær bara ekki nokkurri átt.

Einn lesandi kvartar undan grófleika og hefur líklega snætt grófa mjólkurkexið án þess að gera sér grein fyrir því. Eða speltútgáfuna. Hinir eru bara fúlir yfir því að nokkur maður skuli voga sér að hrófla við uppskriftinni að þessu ljúfmeti.

Frón auglýsti vandlega á kexumbúðum sínum um daginn að þar á bæ væru menn hættir að brúka herta fitu (transfitu). Vitleysingurinn ég, sem þó þykir mjólkurkex ágætt ef ekkert annað er til í kotinu, varð guðslifandi feginn og hafi bragðið breyst eitthvað við fituskiptin var ég sannarlega fús til að fyrirgefa þeim það. Allt fyrir hollustuna. Hélt að fleiri Íslendingar yrðu því fegnir að ófögnuðurinn hefði verið fjarlægður úr kexinu.

Boy, was I wrong.

Ég gleymdi því að mjólkurkex er eitt af því allra heilagasta sem íslenska þjóðin á. Mjólkurkexi á ekki að breyta. Vextir mega fara upp og krónan niður, enda hefur það alltaf verið svoleiðis. En í mjólkurkexi hafa aldrei tíðkast neinar sveiflur. Verði hróflað við því hefur krosstré brugðist og við því megum við ekki. Auk þess er það fullkomlega ólíðandi.

Lifi kransæðakíttið.

 

 


Undarlegar mótmælaaðgerðir

Ég verð að játa að ég er orðinn þreyttur á hávaðanum og umferðartöfunum sem sumir bílstjórar hérna fyrir norðan hafa valdið að undanförnu. Í fyrstu þóttu mér mótmælin skiljanleg en sú afstaða mín hefur smám saman verið að breytast.

Í fyrsta lagi finnst mér rangt að lögbrot skuli liðin.

Í öðru lagi finnst mér fáránlegt að sportjeppakarlar og tómstundaökumenn séu að ybba sig á þennan hátt. Ég skil sjónarmið atvinnubílstjóra miklu betur, en hafi jeppakarlar efni á breyttu jeppunum sínum hafa þeir líka efni á að borga á þá eldsneytið, jafnvel þótt verðið rjúki upp úr öllu valdi.

Í þriðja lagi bitna þessar ólöglegu aðgerðir á saklausu fólki. Margir eru býsna háðir strætisvögnum, (börn, aldraðir, öryrkjar og fatlaðir, svo nokkrir hópar séu nefndir) en áætlun vagnanna fór öll úr skorðum í dag. Á göngu minni (sem farin var af því að strætó kom aldrei) eftir fáfarinni götu mætti ég sjúkrabíl. Fór hann krókaleiðir vegna þess að hann komst ekki eftir aðalgötum bæjarins? Lest gríðarstórra flutningabíla, sem aka hver aftan í annars rassi, á svo sem ekki hægt með að hliðra til.

Hvað ef skelfilegur eldsvoði yrði, eða hroðalegt slys? Hver ber ábyrgðina ef slökkvi-, lögreglu- og sjúkrabílar tefjast vegna þess að götur eru stíflaðar og ekki heyrist í sírenum fyrir bílflautum?

Og hvernig hafa bílstjórarnir eiginlega efni á að mótmæla með þessari aðferð - að eyða eldsneyti -  ef eldsneytið er orðið svona dýrt?

Er þetta ekki svipað og ef ég mótmælti háu matarverði með því að kaupa ósköpin öll af mat á hverjum degi?

Ég ætla miklu frekar að mótmæla háu eldsneytisverði með því að taka ennþá oftar strætó en ég geri og ganga þegar ég get. Þá kaupi ég minna bensín og ríkið fær minna úr vasa mínum. Heilsan batnar og samviskan dafnar!

 


mbl.is Mótmælaaðgerðir á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum aprílgabb!

Akureyri.net sagði frá því að fimm þingmenn úr öllum flokkum hefðu lagt fram frumvarp um bann við hvers kyns aprílgabbi, þar sem saklaust fólk yrði of oft fyrir alvarlegum óþægindum vegna þess.

Þingmennirnir, sem nefndir voru, eru ekki til, né heldur kjördæmi þeirra. Og ekkert slíkt frumvarp er á döfinni að því er ritstjóri www.akureyri.net best veit.


mbl.is Varstu gabbaður í dag?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gúdd God

Hvað næst? Joe Pesci sem Hamlet?
mbl.is Madonna endurgerir Casablanca
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Caddyshack

Þessi frétt minnir nokkuð á þá ágætu prumpuhúmorsmynd Caddyshack með Bill Murray, Chevy Chase og Rodney Dangerfield, þar sem sá fyrstnefndi átti í miklum erjum við jarðíkorna á golfvellinum þar sem hann vann. Ég þyrfti að fara að sjá þessa mynd aftur og kanna hvort ég hef enn sama aulahúmorssmekkinn og þá!
mbl.is Stríð við jarðíkorna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fló

Í gærkvöldi sáum við hjónakornin loksins Fló á skinni í Samkomuhúsinu á Akureyri. Við gátum ekki notað frumsýningarmiðana okkar á sínum tíma og svo var bara uppselt og uppselt ... en það var alveg þess virði að bíða. Raunar varð ég fyrir ofurlitlum vonbrigðum, sennilega af því að svo margir höfðu dásamað sýninguna og ekki átt nógu sterk orð til að lýsa henni. Þetta er hvorki besti farsi sem ég hef séð né skemmtilegasta sýningin. En ég skemmti mér engu að síður konunglega.

Það var gaman að sjá Aðalstein Bergdal aftur á fjölum Samkomuhússins og sömuleiðis þau Margréti Helgu Jóhannsdóttur og Randver frænda minn Þorláksson. Þetta eru frábærlega færir leikarar. Hin eru það auðvitað líka, en það er eins og fyrirhöfnin hjá hinum reyndu leikurum sé engin. Í því liggur m.a. snilld þeirra.

Þó að ég hafi sagt hér að ofan að sýningin hafi valdið mér eilitlum vonbrigðum - svona eins og Óskarsverðlaunamyndir sem almenningur og gagnrýnendur hafa lofsungið svo mjög að maður á helst von á kraftaverki - er hún sannarlega kvöldstundarinnar virði.


Jamm

Ojæja. Best að segja ekki meir. En mikið er ég ánægður með að Rúnar Júlíusson skyldi fá heiðursverðlaunin. Það var löngu kominn tími til.
mbl.is Páll Óskar og Björk söngvarar ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er athafnamaður

Jón Ólafsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi og kaupmaður, er jafnan titlaður "athafnamaður" í fréttum nú orðið. Sennilega vegna þess að hann vasast í svo mörgu án þess að nokkur kjaftur viti í rauninni hvað hann er að brasa svona dagligdags.

Mér finnst soldið óréttlátt að Jón og fleiri útvaldir menn fái einhvers konar einkarétt á þessum fína titli. Sjálfur er ég til dæmis mikill athafnamaður. Ég stunda ýmsar athafnir, borða, sef, vinn, teygi úr mér, les, horfi á sjónvarp, syndi, geng, eltist við börnin mín, fer á snyrtinguna og svo mætti lengi telja.

Skyldu þeir hjá Símaskránni samþykkja að ég titli mig athafnamann? Best að ég láti á það reyna við tækifæri. Mér hefur raunar líka dottið í hug að ég myndi bera titilinn "frömuður" með miklum sóma, enda er orðið gjarnan notað um fólk sem fær einhverjar flugur í höfuðið, framkvæmir þær og dregur aðra með sér. Þetta hef ég oft gert. Flugurnar mínar hafa ekki alltaf verið gáfulegar og þeir sem dregnir hafa verið hafa ekki ævinlega dregist með sjálfviljugir, en það er önnur saga ...


Konur beri eyrnalokka

Í einhverju blaðanna í dag sá ég klausu þar sem dómstjóri nokkur kvartar undan því að karlkyns lögmenn séu, sumir hverjir, hættir að bera hálstau.

Þetta er ljóta vitleysan. Ég hef aldrei skilið af hverju "snyrtilegur klæðnaður" karlmanna felur í sér að þeir þurfi að lufsast um með hálstau. Þau þjóna engum tilgangi og eru vita gagnslaus, hvernig sem á málið er litið. Helst að bindin komi að notum við að hræra í súpunni þegar þjónninn gleymir að færa manni skeið eða þegar mann langar til að kyrkja eitthvert karlkyns merkikertið.

Fræg urðu lætin á Alþingi þegar Hlynur Hallsson þrjóskaðist við að bera bindi. Það var engu líkara en piltur hefði neitað að vera í buxum eða viljað trítla um þingsali í gúmmístígvélum einum fata.

Dómstjórinn segir að konur í lögmannastétt séu miklu duglegri við að klæða sig "snyrtilega". En hver er þá snyrtilegur klæðnaður kvenna? Kjóll? Nei, sumar eru í dragt. Hattur? Varla.

Hér með legg ég til að konur í lögmannastétt og á Alþingi verði skyldaðar til að bera eyrnalokka. Þeir eru ámóta tilgangslausir og bindin og oft álíka ósmekklegir. Verði konur neyddar til að bera eyrnaglingur tel ég að viðunandi jafnrétti sé náð í bili, a.m.k. þangað til einhver hefur þor til að afnema bindi(s)skyldu karlmanna á "fínum" vettvangi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband