Samtíningur

Úrslit kosninganna voru nokkuð merkileg. Gaman var að horfa og hlusta á formennina í Sjónvarpinu áðan, það var eins og í suma væri kominn einhver svefngalsi og þeir Jón og Ómar tóku meira að segja lagið saman. Það verður spennandi að fylgjast með atburðum næstu daga, einnig því hvort útstrikanir reynast nægilega margar til að gera Árna og Birni einhvern grikk að ráði.

Skondið að Ellert B. Schram skyldi detta inn en mér finnst það svolítið ánægjulegt. Hef alltaf haft þá trú að þar fari drengur góður. Láru Stefáns virðist ekki ætlað að sitja á þingi, a.m.k. ekki um sinn, öfugt við Kristin H., sem hefur níu líf eins og kötturinn - og það styttist í að flokkarnir, sem hann hefur setið á þingi fyrir, verði jafn margir og lífin.

Og svo er það nöldur dagsins: Það fer mjög í taugarnar á mér þegar talað er um hin og þessi fylki Bandaríkjanna. Nafn landsins, Bandaríkin, ætti að segja það sem segja þarf. Bandaríkin heita Bandaríkin en ekki Bandafylkin vegna þess að þau eru samband ríkja, ekki fylkja. Aftur á móti eru fylki víða annars staðar, t.d. í Kanada.

Lýkur þar reiðilestri vorum og léttara hjal í augsýn.

Þegar sjónvarpsmenn voru að reyna að pumpa leiðtogana um viðræður og fá upp úr þeim hvort eitthvert makk væri í gangi datt mér í hug vísa sem ég heyrði einu sinni. Mér var sagt að bónakona ein hefði ort hana þegar hún sá karl sinn laumast út í fjós til að eiga ástarfund við mjaltakonuna. Kannski er eitthvað svipað á seyði í pólitíkinni núna?

Arkar karlinn út í fjós

Ingibjörgu að finna.

Ekki þarf hann ætíð ljós

til útiverka sinna.

 

 

 


Sigrar

Svo Serbarnir höfðu það. Ég er hreint ekki óánægður með það, lagið er ágætt og tilbreyting að hafa fullklæddar konur á sviðinu. Tek undir það með Kristínu Björgu Þorsteinsdóttur að gaman hefði verið að vita um hvað kerlurnar voru að syngja, því að lagið var afskaplega dramatískt. Það minnir mig líklega á króatíska lagið Neka mi ne svane, sem tók þátt í keppninni 1998, því að það lag hefur ómað í höfðinu á mér síðan sú serbneska söng sigurlagið í annað sinn áðan.

Ég botna hins vegar ekkert í dálæti manna á búlgarska laginu, sem í mínum eyrum virkaði ósköp pirrandi samsull af væli og trumbuslætti. Svíarnir voru með ódýra glysrokkseftirlíkingu og ekki þótti mér framlag Georgíu áhugavert. Vonandi hafa frændur vorir Írar svo loksins áttað sig á því að ekki hafa allir gaman af þjóðlagatónlistinni þeirra.

Sigmar skaut nokkrum sinnum hressilega yfir markið í athugasemdum sínum og kom það svo sem ekki verulega á óvart. Skondnast þótti mér þegar hann gerði grín að rússnesku stúlkunum fyrir að láta "money" ríma við "funny". Á ensku ríma þessi orð nefnilega fullkomlega. Ég tel hins vegar að okkur áhorfendur varði ekkert um það hvernig Logi Bergmann dansar þegar hann er á fjórða glasi. Og athugasemdin í undankeppninni um fátæktina í Moldavíu var fremur ósmekkleg.

En þrátt fyrir allt hef ég gaman af Evróvisjón. Þetta er einstakt fyrirbæri og þó að flestir vestan gamla járntjaldsins séu víst orðnir sammála um að stokka þurfi keppnina upp finnst mér alltaf jafn athyglisvert að heyra tónlist frá svona mörgum þjóðum á einni kvöldstund - tveimur, reyndar. Ekki eru öll lögin skemmtileg, enda ekki hægt að ætlast til þess, og leitt hversu margir eru farnir að syngja á (bjagaðri) ensku í stað móðurmálsins. Serbar sönnuðu í kvöld að móðurmálið getur staðið fyrir sínu og vel það.

Hvað fyrstu tölur þingkosninganna snertir skil ég ekki að hægt sé að túlka þær öðruvísi en svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið stórsigur (og Vinstri grænir auðvitað líka) en Samfylkingin (og Framsókn náttúrlega) tapað stórt. Samfylkingin hefur nefnilega verið langstærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu á undanförnum árum og ætti því auðvitað að hrifsa heilmikið fylgi af ríkisstjórnarflokkunum. En gerir það ekki. Fylgið stendur nánast í stað. Hlýtur það ekki að vera verulegt áfall? Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 16 ár og tapar ekki fylgi heldur þvert á móti. Hvað er það annað en stórsigur? Mér finnst ekki hægt að miða eingöngu við skoðanakannanir þegar talað er um sigur og tap.

Nú vona ég bara að framsóknarmenn hafi vit á að halda sig utan ríkisstjórnar og safni kröftum og liði. Þeir verðskulda að mínum dómi ekki þessa útreið.


Evrusýn

Eigi reyndumst vér svo ýkja sannspáir hvað atkvæðagreiðsluna í Evrusýn varðaði. Jæja, koma tímar, koma ráð. Ég er eiginlega sammála þeim sem telja að kominn sé tími til að stokka þessa keppni upp. Hvað sem fólki finnst um hana verður því ekki andmælt að hún er fyrirtaks skemmtiefni - að ekki sé minnst á undankeppnina hérna heima - og lögin eru sum hver ágæt þótt önnur séu það ekki. Tónlistarmennirnir eru misgóðir en á suma þeirra er mjög gaman að hlusta. Það virðist bara vera meginreglan að lönd í Norður- og Vestur-Evrópu komist ekki upp úr forkeppninni og við því þarf að bregðast - grínlaust.

Svo er bara að vita hvort mér gengur eitthvað skár að spá um úrslit kosninganna. Ég vona bara að öllum takist að vinna góðan varnarsigur - það er fyrir mestu. Smile


Kjör

Jæja, þá eru skoðanakannanirnar farnar að sýna úrslit sem mér finnast ekkert fjarri því sem ég hef haft á tilfinningunni undanfarna daga. Mér fannst eitthvað svo ólíklegt að Samfylking og Framsókn fengju svona lítið og Vinstri grænir svona mikið. Ég yrði ekki hissa þótt Framsókn fengi 13%, Sjálfstæðisflokkur 34%, Samfylking 27%, Vinstri grænir 16% og aðrir, aðallega Frjálslyndir, afganginn. En ég er ekki stjórnmálafræðingur, ekki álitsgjafi, ekki fréttamaður, ekki spekingur. Bara leikmaður. Nú verður gaman að sjá hvort ég hef rétt fyrir mér.

Ég spái því að Eiríkur Hauksson komist upp úr undankeppninni í kvöld. Hann er einhvern veginn einn  heilsteyptasti karakterinn í þessari furðufánu allri. Og svo syngur hann vel. Lagið er la-la og þar verður kannski við ramman reip að draga, því að lögin í undankeppninni eru mörg hver skárri en þau sem fara beinustu leið í aðalsýninguna. Nú, við stofnum þá bara okkar eigin Evróvisjon ef Eiríkur fær ekki að fara í aðalkeppnina og athugum hvort einhverjir vilji ekki vera memm!


Bönn

Vinstri grænir eru samir við sig. Eftirlits- og bannflokkurinn er í miklum ham þessa dagana og sendir frá sér hvert gullkornið öðru betra. Í dag rakst ég á frétt á vefnum þar sem stóð m.a.: ,,Vinstri grænir boða frumvarp á komandi þingi sem bannar fjáraustur ráðherra og ríkisstjórnar síðustu níutíu dagana fyrir kosningar."

Kannski kaupir þetta einhver, en langt er síðan ég hef séð jafn ódýra auglýsingabrellu. Allt er reynt þegar fylgið byrjar að dala. Ég er ekki talsmaður hafta og banna, en ég er samt að hugsa um að leggja til að lagt verði fram frumvarp á komandi þingi sem bannar stjórnmálaflokkum að boða til loftbólu-blaðamannafunda um fánýt málefni síðustu níutíu dagana fyrir kosningar.

Væri slíkt frumvarp nokkuð vitlausara en hitt?

 


Hundur

Gamall hundur er að reyna að læra að sitja og nýtur til þess aðstoðar ákaflega þolinmóðs og elskulegs þjálfara sem kannski tekst ætlunarverkið áður en yfir lýkur, hver veit. Gamli hundurinn er að sjálfsögðu yðar einlægur og ég er þessa dagana að læra handtökin í útibúi Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins á Akureyri. Við erum tvö sem erum byrjuð þarna en verðum sex með haustinu þegar liðið telst fullskipað. Þjálfarinn minn er góð vinkona okkar hjóna sem lengi hefur starfað á Miðstöðinni í Reykjavík. Það er dálítið sérstakt að vera nánast í hlutverki byrjanda þrátt fyrir að hafa starfað við þýðingar með hléum í tuttugu ár. Aðferðafræðin við þýðingar er svo gjörólík eftir því hvort um er að ræða bókmenntir eða samninga og gerðir að það er í raun ekki sambærilegt. Þetta verður spennandi.gammelhund

 


Shirl

Ja, sko Shirley Bassey! Hún var að setja met í vinsældum og sló þar með við sjálfum Elvis Aaron Presley. Hún hefur sumsé komið við sögu breska vinsældalistans í meira en hálfa öld og í því er metið fólgið. Kerlan velska á lag á listanum þessa dagana og sýnir og sannar að allt er sjötugum fært. shbassey

Skipti

Jæja, í hönd fer nokkuð stór dagur. Konan mín á afmæli og besta vinkona dóttur minnar sömuleiðis, svo að það verður mikið um að vera. Tvíburarnir fara í árlega skoðun til tannlæknis og með hana verða vonandi allir ánægðir - ég efast þó um að veskið mitt æpi af gleði. Og í fyrramálið byrja ég í nýju starfi. Aðalstarfi - ég er ekki að fara að bæta á mig einu djobbinu enn, hvort sem þið trúið því eður ei! Það verður dálítið skondið. Ég hef verið á sama stað í nærri fjögur og hálft ár en hoppa nú yfir í allt aðra rútínu og öðruvísi vinnu. Ég er svo sem ekki búinn að kveðja gamla staðinn endanlega enn, nýr maður tekur ekki við alveg strax og ég reikna með að þurfa að koma honum inn í starfið þegar þar að kemur. En þetta er spennandi. Ég veit að ég fæ góðan leiðbeinanda á nýja staðnum svo að ég er ekki kvíðinn hvað það snertir.

Konan skipti um vinnu um áramótin svo að þetta verður ár hinna miklu atvinnuskipta. Og við höfum breytt ýmsu öðru, ég er t.d. farinn að ganga og taka strætó í vinnuna miklu oftar en áður og finn mikinn mun á skrokknum, en ekki síður á samviskunni. Hún mátti nú líka alveg við því að skána, blessunin.

Og svo eru það kosningarnar og Evróvisjón. Ég vonast eftir þrennu um næstu helgi: Góðum kosningaúrslitum, velgengni hjá Eiríki og skánandi veðráttu!


Gekkó

gekkoinnVar að lesa frétt um að Gordon vinur minn Gecko væri að snúa aftur eftir - ja, tveggja áratuga hlé, líklega. Fyrir þá sem ekki kveikja á perunni skal upplýst að hér er Michael Douglas á ferð í hlutverki skítbuxans sem maður elskaði að hata í myndinni Wall Street seint á níunda áratugnum. Vona að Gekkóinn hafi elst vel og að myndin verði samboðin fyrirrennara sínum. Hvað með Charlie Sheen? Verður hann með?

Í gærkvöldi var sýnd mynd á RÚV þar sem þeir léku saman þrír Douglassar, Kirk, Michael og Cameron. Ég gafst upp á myndinni, fannst hún lítt skemmtileg, og það var eiginlega hálfgerð raun að horfa á eymingja Kirk karlinn svona á sig kominn. Hann hefði betur gert eins og Cary Grant, hætt leiknum meðan hæst bar. Ég horfði í staðinn á seinni hlutann af The Rope á erlendri sjónvarpsstöð. Þar var Christopher Reeve á ferð, ekki Hitchcock. Ákvað að bera þessar tvær myndir ekki saman og fannst þessi því bara nokkuð góð.

Ég er enn á þeirri skoðun að gera eigi fína mynd um James Bond á gamals aldri, með annaðhvort Moore eða Connery í aðahlutverki. Chuck Berry ætti að semja titillagið. Merkilegt, annars, hvað karlinum þeim var lítill sómi sýndur á áttræðisafmælinu um daginn. Hélt að útvarpsstöðvarnar myndu gera meira úr ferli hans og áhrifum og kannski sjónvarpið líka. En lítið fór fyrir því. Oft hefur verið meira látið með minni spámenn, svo mikið er víst.

En alveg er þetta merkilegt með hann Harald veðurfræðing og norðanáttina. Maðurinn má bara ekki birtast á skjánum, þá má maður bóka að hann leggst í norðanátt!


Söfn

Um helgina verður efnt til átaks á Akureyri sem snýst um það að fá Akureyringa til að heimsækja söfnin sín og aðra merka staði, gerast ferðamenn í heimabæ. Þetta mun hafa verið reynt í Reykjavík með góðum árangri. Þegar ég sá þetta auglýst lá við að ég roðnaði af skömm. Í sum safnanna hef ég ekki komið árum saman og í nokkur þeirra hef ég aldrei komið! Hef þó eytt samtals 23 árum ævi minnar á Akureyri. Við svo búið má ekki standa og ég vonast til að geta tekið mér tak um helgina og heimsótt söfnin. Ég er reyndar lítill safnamaður svona yfirleitt og hef t.d. aðeins heimsótt örfá af söfnum höfuðborgarinnar.

Svo fór ég að hugsa um að eiginlega skyti þetta safnaátak skökku við og í því væri næstum fólginn tvískinnungur. Fyrir mörgum árum var Náttúrugripasafninu á Akureyri nefnilega pakkað niður í kassa og þar er það enn, eftir því sem ég best veit. Það liggur við að mér finnist að varla sé hægt að bjóða upp á safnadag fyrr en þessi mál eru komin í lag. Og hvað veldur þessu eiginlega? Er þa stefna yfirvalda að safnið verði um aldur og ævi í kössum? Hér með er lýst eftir Náttúrugripasafninu á Akureyri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband