2.5.2007 | 21:46
Mary
Var að hlusta á disk sem ég keypti mér nýlega, safndisk með lögum bandarísku sálarsöngkonunnar Mary Wells. Keypti hann af hálfgerðri rælni, vissi fátt annað um Mary en að hún hafði sungið lagið "My Guy" hér í gamla daga. Ómótstæðilegt lag, enda kom upp úr kafinu að diskurinn er hinn dásamlegasti. Ekki er verið að flikka neitt upp á upptökurnar eins og nú er til siðs heldur gamli hljómurinn látinn halda sér eins og hægt er. Ekki spillir fyrir að diskinum fylgir fínasti bæklingur með miklum upplýsingum um lögin og söngkonuna. Mary Wells lést fyrir aldur fram fyrir allmörgum árum.
Ég hef keypt nokkra svona diska á undanförnum árum, þ.e. diska sem fást á góðu verði en enginn virðist kaupa nema sérvitringar eins og ég. Oft renni ég blint í sjóinn, þekki e.t.v. eitt eða tvö lög með flytjandanum en veit lítið meir. Margir þessara listamanna hafa komið mér ánægjulega á óvart og eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Má þar nefna Barböru Lewis, Jimmie Rodgers, Billy Fury og Dido.
Senn líður að því að tónlistarþátturinn minn litli á Rás 1, Pipar og salt, heyri sögunni til. Honum verður a.m.k. gefið frí í sumar og svo veit enginn hvað haustið ber í skauti sér. Ég er alls ekki ósáttur við fríið, enda allt annað en auðvelt að halda úti svona þætti þótt lítill sé. Það er hins vegar óskaplega gaman. Og Pipar og salti á ég öðrum þræði því að þakka að ég fór að kaupa geisladiska á ný, en um tíma var ég eiginlega hættur að hlusta á tónlist. Nú nýt ég þess að hlusta á vandað efni - af geisladiskum og vínýlplötum. Börnin mín eru mikið áhugafólk um dægurtónlist, nýja jafnt sem gamla, og hafa sérstaklega gaman af að fylgjast með mér fást við plötuspilarann.
Það gleður mitt gamla hjarta að nú skuli aftur fást plötuspilarar. Víða erlendis rokseljast LP-plötur. Hringrás tilverunnar lætur ekki að sér hæða.
2.5.2007 | 16:02
Auglýsingar

2.5.2007 | 12:05
Deyfð
1.5.2007 | 13:28
Stráksi
Mér finnst alltaf leiðinlegt þegar ég frétti af gömlum kunningjum sem gengur illa að fóta sig í lífinu þrátt fyrir að hafa fengið mikla hæfileika í vöggugjöf og hafa sigrað heiminn um stund. Nýjustu fréttir af Boy George komu mér úr jafnvægi, ekki þó vegna þess að ég hafi á honum svo miklar mætur (hann var að vísu samferðamaður minn á níunda áratugnum en ég kunni aldrei almennilega að meta hann, blessaðan) heldur vegna þess að George O'Dowd er enn eitt sorglega dæmið um hæfileikamann sem Bakkus og félagar ná tökum á og leika grátt - hvað eftir annað. Boy George var ein stærsta stjarna níunda áratugarins en af honum hefur lítið frést síðan, nema þá í sambandi við fíkniefnamál, furðulegar uppákomur og afbrot. Ég vona sannarlega að Boy George, og öllum sem glíma við fíkn og fylgifiska hennar, takist að losna úr viðjunum og finna hinn eina, hreina tón.
Skemmtilegri var fréttin um 95 ára gömlu konuna sem lauk háskólaprófi um daginn. Þetta er sko langamma í lagi.
30.4.2007 | 10:47
Reykur
29.4.2007 | 10:57
Fínt
5 stelpur reyndust hin fínasta sýning. Verkið (Sjö stelpur) er reyndar orðið svolítið skrýtið eftir að hafa verið klippt og skorið á ýmsa vegu og nú er það ekki nema tæplega klukkustundarlangt, en nýja heitið á verkinu segir áhorfandanum að ekki sé ætlast til að hann beri þetta saman við frumtextann nema að litlu leyti. Þó er annað ekki hægt. Sumar persónurnar eru hvorki fugl né fiskur og svo er leikritið bara allt í einu búið. Ég er alveg viss um að með þennan efnivið hefði leikstjórinn hæglega getað sviðsett leikrit í fullri lengd.
Stelpurnar sem leika burðarhlutverkin eru nefnilega alveg hreint frábærar. Þvílík efni! Og það er út af fyrir sig meira en næg ástæða til að drífa sig að sjá sýninguna áður en það verður of seint. Mér skilst að síðasta sýning sé í kvöld í gamla Barnaskóla Akureyrar. Ég verð að snúa þumli niður hvað verkið snertir en þumallinn snýst svo sannarlega við hvað sýninguna sjálfa áhrærir. Gott að sjá að Leikklúbburinn Saga iðar enn af lífi.
28.4.2007 | 17:13
Stelpur
Í kvöld ætlum við hjónin að fara í leikhús. Í gamla skólann minn. Þar er okkur boðið á sýningu á leikritinu 5 stelpur sem Leikklúbburinn Saga frumsýndi í fyrrakvöld, en þá komumst við því miður ekki. Við ætlum því að drífa okkur í kvöld. Ætli ég reyni svo ekki að skrifa einhvers konar umsögn um stykkið á www.akureyri.net .
Leikklúbburinn Saga skipar alveg sérstakan sess í hjarta mínu, því að ég var í hópi þeirra sem stofnuðu hann í ársbyrjun 1976. Við höfðum drifið okkur á leiklistarnámskeið, nokkrir unglingar, hjá leikurunum Þóri Steingrímssyni og Sögu Jónsdóttur, en okkur fannst svo gaman að við tímdum ekki að hætta þegar námskeiðinu lauk. Við stofnuðum því lítið leikfélag sem fékk svo sitt núverandi heiti árið 1978, til heiðurs Sögu Jónsdóttur, og gekk þá í Bandalag íslenskra leikfélaga. Saga er elsta starfandi unglingaleikhús landsins og á sér merka sögu. Ég er ákaflega stoltur af að hafa tekið þátt í starfinu fyrstu árin og glaður yfir því að klúbburinn skuli enn starfa af krafti.
Ég hlakka til að sjá sýninguna, sem er víst einhvers konar ný og breytt útgáfa af Sjö stelpum sem Leikklúbburinn Saga sýndi 1979. Það verður spennandi að sjá hvernig til tekst. Leikstjóri er hinn bráðflinki leikari Ólafur Steinn Ingunnarson.
27.4.2007 | 21:34
Ellur
Ári hef ég gaman af Evróvisjónspekingunum norrænu. Og ég var nokkuð sammála áliti þeirra áðan. Held þó, eins og Eiríkur, að óraunhæft sé að ætla honum efsta sætið í undankeppninni. Og sjálfur vil ég gjarnan að lagið frá Georgíu komist áfram. Ég er hins vegar ekki hrifinn af makedónska laginu og Hvítrússinn er einhver mesti sætabrauðsdrengur sem sést hefur síðan Donny Osmond var og hét (Donny er bara betri söngvari). Lagið frá Andorra, skemmtileg McFly- og Busted-stæling, kemst vonandi áfram á ferskleikanum og mikið hafði ég gaman af diskófönkinu frá áttunda áratugnum sem Belgar buðu upp á. Lettar mega aftur á móti sitja heima mín vegna. Slóvenar sömuleiðis. Það voru hins vegar Tyrkir sem gerðu mig aldeilis dolfallinn. Aðra eins hörmung hef ég hvorki séð né heyrt lengi og ég botnaði ekkert í spekingunum sposku að gefa því svona mörg stig! En smekkur og spádómar eru gerólíkar Ellur og Tyrkir komast áreiðanlega áfram. Gangi þér vel í Helsinki, Eiríkur, og takk fyrir skemmtunina í þessum þáttum.
27.4.2007 | 20:04
Veður
Las í einhverju blaði pistil blaðamanns um að honum fyndust veðurfréttirnar á Stöð 2 miklu betri en á RÚV. Ég er alveg hjartanlega ósammála. Veðrið á Stöð 2 er að vísu oft líflegra og litríkara, en einhvern veginn á ég óttalega erfitt með að taka nokkurt mark á Sigga stormi, kannski vegna æsifréttastílsins. Og stelpurnar, blessaðar, hver annarri huggulegri... æ, þær eru eflaust ágætar, skinnin, en einhvern veginn verða veðurfréttirnar (í mínum augum og eyrum) trúverðugri úr munni örlítið eldra fólks sem ekki er endilega að eltast við tískuna í hárgreiðslu og klæðaburði.
Ég held að þetta sé bara vegna þess að ég er nógu gamall til að muna eftir veðurfræðingunum Knúti Knudsen, Hlyni Sigtryggssyni og hvað þeir hétu nú allir, þessir heiðursmenn, sem sneru kassanum gamla svo listavel í Sjónvarpinu á árum áður. Afleiðingin er sú að ég kann best að meta veðurfregnir sem eru að miklu leyti lausar við æsing, glans og glamúr. Oftar en einu sinni hef ég staðið mig að því að hafa fundið sterka þörf fyrir að horfa á veðrið á RÚV eftir að hafa horft á það á Stöð 2. Svona bara til að fá almennilegt veður!
Djöh er maður orðinn gamall.
27.4.2007 | 10:45
Kyn
Rakst á eftirfarandi klausu á norðlenskum fréttavef nú í morgun (leturbr. mín):
"Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands eystra í þriggja ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á fyrrum unnustu sína og annan karlmann..."
Ja, miklir frjálslyndistímar eru þetta.