28.11.2018 | 20:19
Leikhús og tónleikar
Ég skrapp í leikhús í Lundúnum um helgina og þótt fyrr hefði verið. Sá tvö leikrit. Mæli með "The Height of the Storm" eftir Florian Zeller, þar sem gömlu kempurnar Eileen Atkins og Jonathan Pryce fara á kostum í margræðu og lágstemmdu verki, en var ekki hrifinn af "True West" eftir Sam Shepard. Ef til vill er verkið ekki eins gott og mig minnti (ég las það endur fyrir löngu), en uppfærslan heillaði mig að minnsta kosti ekki. Ég fór líka á tvenna tónleika, Billy Ocean í Cardiff og Monty Alexander í Lundúnum. Báðir eru frá Vestur-Indíum. Báðir fluttu "No Woman No Cry". Ocean stóð fyrir sínu, en djasspíanistinn Alexander, sem ég þekkti ekkert til áður, er hreinræktaður snillingur - og meðspilararnir líka.
2.11.2018 | 20:47
Olía
Auk þess leggur Helgi Már Barðason til að Íslendingar fari nú að kaupa olíu frá Íran.
14.10.2018 | 10:42
Kórallar
Helgi Már Barðason brá sér á firnagóða tónleika með ensku hljómsveitinni The Coral. Prýðileg skemmtun. Fínir rokkarar, flott lög.
6.10.2018 | 10:01
Eru Íslendingar langræknasta þjóð í heimi?
Helgi Már Barðason telur mál að linni.
30.9.2018 | 16:30
Flón
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu eftir alllanga yfirlegu að Íslendingar séu, þegar á heildina er litið, hálfvitar. Við hefðum betur farist allir með tölu í móðuharðindunum.
20.9.2018 | 19:34
Ekki er öll vitleysan eins
Og hananú, segir Helgi Már Barðason
6.9.2018 | 17:27
Hörundsár Netanjahú
Hinn einkar blíðlyndi, víðsýni og þolinmóði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels og besti vinur Bandaríkjaforseta, er dálítið hörundsár um þessar mundir (eins og stundum áður). Ósköp geta menn orðið sárir þó að áhrifalítið ríki á borð við Paragvæ vilji hafa sendiráð sitt annars staðar en í borg sem þjóðir heims viðurkenna ekki sem höfuðborg Ísraels.
Helgi Már Barðason vonar að karl sjái að sér innan tíðar og skrái sig jafnvel á námskeið þar sem fólk lærir að hemja skap sitt.
24.8.2018 | 19:44
Í röngum rekstri?
Kristján Loftsson er maður fylginn sér og skeytir ekki um almenningsálitið, ólíkt flestum Íslendingum.
Væri ekki tilvalið að reyna að fá hann til að veiða einhverja skaðvalda, fremur en hvali sem skila litlu í þjóðarbúið en skaða ferðaþjónustuna og orðspor Íslendinga meðal annarra hræsnara heimsins?
Mér dettur í hug að Kristján væri tilvalinn náungi til að stemma stigu við spánarsnigli, skógarkerfli, lúsmýi, veggjalús, geitungum og öðrum fyrirbærum sem eru okkur almennt til óþurftar og gera lítið gagn.
Hann gæti kannski fækkað faríseunum í leiðinni.
20.6.2018 | 21:07
Ekki í vandræðum?
"Svíar ekki í vandræðum með Suður-Kóreumenn." Eitthvað á þessa leið hljómaði fyrirsögn eins netmiðilsins eftir knattspyrnuleik þjóðanna á HM.
Sigruðu Svíar ekki með einu marki gegn engu? Var ekki markið skorað úr vítaspyrnu?
Helgi Már Barðason veit ekki mikið um fótbolta, hvað þá hvar Suður-Kóreumenn eru á heimslistanum, en eitt-núll sigur úr víti þýðir í hans huga rúmlega bullandi vandræði - og hundaheppni.
27.5.2018 | 17:08
Das war und (Það var og)
Þannig fóru nú kosningarnar. Jamm og já. Helgi Már Barðason óskar sigurvegurunum til hamingju, hverjir sem þeir eru.