Færsluflokkur: Bloggar

Orð dagsins

Lýðskrum: skjall, skrum fyrir almenningi eins og hann vill heyra. (Íslensk orðabók).

 

 


Jæja ...

... þá er enn byrjað að snjóa hérna fyrir norðan. Alveg er ég handviss um að það er Davíð Oddssyni að kenna.

Fyrstur en líka fertugasti og fjórði

Merkilegur náungi þessi Barack Óbama. Hann er ekki bara fyrsti blökkumaðurinn sem verður forseti Bandaríkjanna. Hann er líka fyrsti kynblendingurinn. Og ekki nóg með það. Hann er um leið fertugasti og fjórði hvíti maðurinn sem kjörinn er Bandaríkjaforseti.

Geri aðrir betur.


Vornótt

Ja, úrslitin í Söngvakeppninni voru sannarlega ekki eins fyrirsjáanleg og síðast. Það var reyndar nokkuð víst að Ingó kæmist áfram, enda ungur, myndarlegur og þekktur, en sveitungi minn, Hallgrímur Óskarsson hefur oft samið betri lög. Danir hafa margoft notað þessa formúlu og hún hefur ekki skilað þeim árangri. Ég efast um að við fengjum mörg atkvæði út á Regnbogann, því miður.

Lagið Vornótt gæti á hinn bóginn aflað okkur býsna margra atkvæða ef menn gæta þess að eyðileggja það ekki með einhverjum vanhugsuðum breytingum. Sakleysisyfirbragð söngkonunnar, einföld hárgreiðslan, skartleysið og doppótti kjóllinn minna á Dönu hina írsku og fleiri vinsæla þátttakendur frá fyrri tíð og ég er sannfærður um að svona einfaldleiki, sakleysi og fegurð falla vel í kramið hjá mörgum. Áhorfendur í sjónvarpssal voru greinilega hæstánægðir með að lagið skyldi komast áfram - enda er það afskaplega íslenskt á margan hátt og óskandi að þeir sem enn halda að alþjóðlegur glamúr og umbúðir utan um ekki neitt séu lykillinn að velgengni í Evróvisjón fari nú að sjá ljósið ... Wink


Heygarðshornið

Fyrirsjáanleg voru úrslitin í fyrsta hluta undanrása söngvakeppninnar í sjónvarpinu í kvöld. Landsmenn völdu sæta strákinn og þekktustu stelpuna. Landsmenn völdu lögin tvö sem sungin voru á ensku. Völdu ekki íslenskt. Höfnuðu tungumálinu og sömuleiðis eina laginu þar sem vottaði fyrir þjóðlegri hefð. Ætlum við aldrei að læra að það skilar okkur eintómu skúffelsi þegar við rembumst við að herma eftir öðrum?

Lag Óskars Páls Sveinssonar, sem Jóhanna Guðrún söng, var að mínu áliti slakasta lag kvöldsins. Dramatíkin í lagi Heimis Sindrasonar var mikil (en ekkert sérlega sannfærandi) og sömuleiðis í flutningi söngvarans unga, sem hefur fantagóða rödd. Mér fannst þar bregða fyrir meinlegri málvillu nokkrum sinnum en vona að mér hafi misheyrst! Valgeir Skagfjörð var með athyglisvert lag en hefði að mínu viti mátt vera enn djarfari við að nýta sér þjóðlagahefðina. Hann á hins vegar hrós skilið fyrir viðleitnina, sem svínvirkaði að minnsta kosti á yðar einlægan. Ég er einhvern veginn svo hjartanlega sannfærður um að við náum ekki skikkanlegum árangri í Evróvisjón á ný fyrr en við komum með eitthvað sem enginn annar getur státað af - eitthvað íslenskt.


Lélegur bloggari

Ég hef verið linur og lélegur í blogginu að undanförnu enda finnst mér umhverfið allt orðið heldur þrúgandi og fjandsamlegt. Bloggið er undirlagt af pólitík, mótmælum, skítkasti og eilífum barlómi. Ég er gamall og meyr eymingi og þoli ekki þennan ofsa, ofstopa og ofstæki sem nú einkennir málflutning margra bloggara. Ég fæ alveg nóg af stjórnmálaþrasinu, mótmælunum, spellvirkjunum og hinum og þessum ásökunum í fréttunum og nenni ekki að blogga í þessu umhverfi. Ég ætla að hinkra og halda að mér höndum að sinni.

Kannski fer að ára betur með hækkandi sól og hver veit nema karl hefji þá blogg sitt að nýju.


Raunasaga af Sprettinum

Léleg þótti mér þjónustan hjá pítsugerðinni og myndbandaleigunni Sprettinum á Akureyri í dag.

Við hjónin vorum að halda upp á afmæli yngri sonar okkar og tókum á leigu myndina Leyndardómar Snæfellsjökuls (Journey to the Center of the Earth), sem við vissum að myndi falla í kramið hjá afmælisgestum, rúmlega tug fjörmikilla tíu ára drengja.

Afgreiðslukonan, ung stúlka en þó enginn unglingur, nefndi ekki að myndin væri í þrívídd og að til þess að njóta hennar þyrftu áhorfendur sérstök gleraugu. Þaðan af síður nefndi hún að gleraugun, sem fylgdu myndinni, væru aðeins fern talsins.

Við hjónin mættum alsæl með myndina í afmælið en fljótt kom í ljós hvers kyns var. Brá ég þá á það ráð að bruna á Sprettinn og kanna hvort ég gæti fengið tólf gleraugu til viðbótar. Stúlkan var hin alúðlegasta, hringdi í einhvern til að athuga málið, en sagði svo að því miður væri það ekki hægt.

Spurði ég þá hvort ég gæti fengið ein gleraugu til viðbótar, svo að við, fimm manna fjölskyldan, gætum horft á myndina í kvöld, að afmælinu loknu.

Stúlkan svaraði neitandi. "Getur þá fimm manna fjölskylda ekki horft saman á myndina?" spurði ég gáttaður.

Nú hafði stúlkan greinilega notað allan almennilegheitaskammt dagsins því að hún svaraði bara: "Nei, og ekki heldur sex manna fjölskylda."

Það fauk í mig við þetta og sagði ég stúlkunni að ég kæmi aftur eftir smástund með myndina og vildi þá fá endurgreitt. Daman gapti af undrun og gapir sjálfsagt enn, því að ég lét undan þrábeiðni barnanna minna og hélt myndinni. Til þess að fjölskyldan gæti öll horft saman á hana fékk ég lánuð þrívíddargleraugu hjá vini eldri sonar míns og erum við nú um það bil að setjast niður með popp og gos og njóta hennar.

En ekki er það Sprettinum að þakka.

Ég ætla ekki að krefjast endurgreiðslu, en hins vegar ætla ég að vera duglegur að auglýsa þá lélegu þjónustu og drungalegt viðmótið sem viðskiptavinir geta vænst á þessum stað. Og ég ætla ekki að skipta við Sprettinn aftur í bráð, enda víða betri pítsur og notalegri myndbandaleigur í bænum.


Glerá

Mér þykir vænt um bæjarlæk Akureyringa, Glerá. Þess vegna þykir mér leiðinlegt að sjá hvað ánni er lítill sómi sýndur. Segja má að hún hafi á kafla verið gerð aðgengileg mönnum og umhverfi hennar fegrað, en mikið er eftir. Kanadískur kunningi minn, sem hér var á ferð í haust, var alveg gáttaður á því að allt umhverfi árinnar skyldi ekki gert að útivistarsvæði, svo hrifinn var hann af henni. Ég tek undir það. Í leiðinni mætti lífga upp á alla smálækina sem renna í Glerá - þeir hafa margir hverjir verið niðurlægðir. Hið sama má raunar segja um Búðarlækinn í Innbænum, en vonandi halda ráðamenn þannig á spöðum að lækurinn verði bæjarprýði, nú þegar hesthúsin eru farin og tækifærin blasa við.

Mér finnst ...

... þjófnaður vera þjófnaður. Sem sagt refsivert athæfi. Líka þegar myndefni er stolið og það birt opinberlega. Þjófur getur aldrei orðið hetja. Jú, kannski Hrói höttur, en hann er löngu dáinn og myndefnisþjófar Íslands í dag eru af allt öðru sauðahúsi.

... fundarstjórar eiga að sýna fundarmönnum, ekki síst þeim sem sitja fyrir svörum, almenna kurteisi. Það á ekki að tala niður til fólks - jafnvel þótt sumir þeirra, sem sitja fyrir svörum, hafi gert sig seka um slíkt í áranna rás. Það á hvorki að sýna fólki dónaskap né hroka - það heitir að upphefja sjálfan sig á annarra kostnað.

... fjölmiðlar verða að hætta að sulla í neikvæðinni. Þeir eru komnir á einhvers konar fyllerí og við erum í bullandi neyslu með þeim.


Mér finnst ...

... að lýðskrum eigi að vera refsivert.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband