Færsluflokkur: Bloggar
21.11.2008 | 21:41
Hvenær fara kettir að snæða?
Mér skilst að Whiskas kattamatur sé nokkuð sem kettir sækja mjög í að fá að borða ... ég gat að minnsta kosti ekki betur heyrt í sjónvarpsauglýsingu áðan. Hvenær skyldu kettir hafa hætt að éta og farið að borða? Og sitja þá væntanlega eins og sannir aristókettir vopnaðir hníf og gaffli og jafnvel með smekk framan á sér?
Skepnurnar eru sem sagt farnar að borða - vonum seinna. Líklega er tímaspursmál hvenær ferfætlingarnir byrja að snæða, hafa hægðir og kasta af sér vatni í stað þess að éta, skíta og míga eins og þeir gerðu í mínu ungdæmi.
16.11.2008 | 21:47
Læknaraunir
Ég hef nú gert allnokkrar árangurslitlar tilraunir til að reyna að horfa á bandaríska læknaþáttinn House og hafa gaman af. Það hefur sem sé ekki tekist enn og mér er eiginlega hulin ráðgáta hvers vegna. Vinnufélagar mínir eru ákaflega hrifnir af þessum þáttum og margir kunningja minna líka, en ég engist og þjáist af andlegum kvölum sem ekki linnir fyrr en ég stend upp og geng burt frá sjónvarpstækinu.
Ef til vill er það bandarískur hreimur Hughs Laurie, sem þó er annálaður, að sögn. Ég veit það ekki - það er eitthvað við hreiminn sem fer í taugarnar á mér. Eitthvað sem kemur upp um hann. Eitthvað sem veldur því að mér finnst neonljósaskilti með orðunum "FAKE" fara í gang þvert um andlitið á manninum í hvert skipti sem hann opnar túlann.
Ef til vill er það skortur á sympatískum persónum í þáttunum. Sjálfur er doktor Hás svo leiðinlegur að engum yrði líft nálægt honum lengur en í fáeinar sekúndur, væri hann raunverulegur. Yfirmaður hans er tröllheimsk, húmorslaus kona - ég hef ekki séð aðra hlið í þau skipti sem ég hef reynt að horfa - og samstarfsmennirnir litlausir og bitlausir. Sjúkdómarnir eru vissulega krassandi stundum - ég vildi bara að það væri skemmtilegra fólk sem fengist við þá.
En er það kannski ég sem er aðfinnsluverður frekar en þátturinn? Stundum held ég að svo sé. Hvernig má það annars vera að ég, sem má vart vamm mitt vita (!) og ekkert aumt sjá, nýt þess í botn að fylgjast með fjöldamorðingjanum Dexter, sem eyðir mannslífum, en þoli ekki lækni sem reynir að bjarga þeim?
Ég veit það ekki. Hitt veit ég að ég ætla svo sannarlega að horfa á vin minn Dexter í kvöld en frekari tilraunir til að horfa á þátt um House bíða næsta árs. Hins vegar gæti vel verið að ég keypti mér sett af þáttum um þá Jeeves og Wooster næst þegar pyngjan mín veitir mér leyfi - þar fór Hugh Laurie á kostum, enda í miklu betri félagsskap.
15.11.2008 | 21:10
Bond enn og aftur
Ég er eiginlega alveg hættur við að fara á nýju Bond-myndina eftir að hafa lesið um hana dóma í íslenskum og erlendum blöðum.
Ég hef gaman af hröðum og góðum hasarmyndum, en ekki ef það merkir að Bond er róbótíseraður og gerður að húmorslausum, alltumhlaupandi freðufsa. Nóg er af slíkum myndum og að mínu áliti á ekki að spyrða James Bond saman við slíkar hraðþvælur. Daniel Craig var kominn í þann gírinn í síðustu mynd, sem að mínu áliti er dauflegasta Bondmynd frá upphafi þrátt fyrir hasarinn, og persónan, karakterlaus og steingeld, var ekki í neinum takti við þá Bonda sem á undan hafa komið.
Nýlega sá ég í blaði einu myndarlega samantekt á því hverjar væru 5 bestu Bondmyndirnar og hverjar væru fimm þær verstu.
Ég hélt í fyrstu að þetta væru niðurstöður einhverrar könnunar, kannski bara óformlegrar, en ég hrökk eiginlega í kút þegar ég uppgötvaði að þetta var bara niðurstaða eins blaðamanns. Að minnsta kosti gat ég ekki betur séð.
Ætli ég geti líka tekið saman einhvern svona léttan þvætting og sent blaði til birtingar? Og fengið jafnvel hálfa síðu?
Ég segi þvætting, vegna þess að ég gat ekki séð að valið væri almennilega rökstutt. Hvað er nákvæmlega átt við þegar sagt er að einhver Bond-mynd sé "verst"? Hvað er að? Hvað skortir? Hverju er ofaukið? Og hvað gerir Bond-mynd "góða"?
Ég veit að ég á ekki að taka sjálfan mig svona alvarlega, en ég geri þá kröfu til blaða að úttekt á þeirra vegum sé sæmilega fagleg. Þessi umfjöllun átti miklu fremur heima á bloggsíðu en í víðlesnu dagblaði. Fleiri Bond-aðdáendur en ég urðu hissa. Fyrir nokkrum árum gerði ég nokkra útvarpsþætti um James Bond og myndirnar (sem þá voru tuttugu) og reyndi eftir megni að vera sæmilega hlutlægur. Mín persónulega skoðun á því hver er besti Bondinn eða Bondmyndin kemur hlustendum nefnilega ekki við - ekki fremur en skoðun blaðamannsins kemur lesendum við, nema þá á bloggsíðu eða í einhvers konar dagbókarfærslu.
Til gamans er ég að hugsa um, af því að þetta er nú bloggsíða, að gefa ykkur hugmynd um hver mér þykja bestu og verstu Bondlögin. Umfjöllunin er fullkomlega faglaus. Ég er líka 100% sannfærður um að ekki finnst einn einasti kjaftur sem verður sammála mér.
BESTU BOND-LÖGIN:
1. Goldfinger. Klassík. Shirley Bassey er eini listamaðurinn sem flutt hefur fleiri en eitt Bondlag (þrjú raunar) og þetta er það besta.
2. All Time High (úr Octopussy). Fallegasta Bondlagið og eitt besta lag sem Rita Coolidge hefur sungið á ferli sínum. Hæfir rödd hennar einstaklega vel og myndinni einnig.
3. You Only Live Twice. Seiðandi eins og Bond á að vera. Nancy Sinatra hefur ekta rödd í svona lag.
4. The World Is Not Enough. Garbage blandar snilldarlega saman hefð og nýjum hljómi.
5. Licence To Kill. Ef einhver getur fetað í fótspor Shirley Bassey er það Gladys Knight. Dúndurlag og fellur vel að hefðinni.
VERSTU BOND-LÖGIN
1. Die Another Day. Hverjum datt eiginlega í hug að hleypa Madonnu í heim Bonds? Alger lagleysa og smekkleysa.
2. Live And Let Die. Mörg lög saman í einum pakka, Bondlegt á köflum en tekur furðulegar beygjur, annað veifið út í móa. Paul McCartney er bara ekki nógu snjall til að ráða við svona lagað.
3. Thunderball. Samið í skyndi þegar hætt var við (ennþá verra) lag með Dionne Warwick og það leynir sér ekki. Tom Jones syngur.
4. The Man With The Golden Gun. Kokkteill sem ekki gengur upp. Hægi kaflinn á skjön við þann hraða en Lulu er alltaf skemmtileg.
5. The Living Daylights. Svo sem ekkert slæmt lag, en Bondstíllinn er víðs fjarri og ómögulegt að heyra að þetta lag komi úr slíkri mynd.
Og hver finnst mér þá vera besta Bond-myndin? Svar: The Spy Who Loved Me. Og af hverju? Af því að mér finnst hún skemmtilegust og á hana get ég horft oftar en flestar hinna. Svo einfalt er það.
Sú versta (að mínu áliti) er nefnd hér að ofan.
Og hananú.
2.11.2008 | 22:33
Elliglöp
Hvað hét nú aftur náunginn sem vildi setja fjölmiðlalög til að koma í veg fyrir að margir fjölmiðlar lentu í höndum örfárra aðila?
Og hvað hét nú aftur gaurinn sem kom í veg fyrir lagasetninguna?
Æ, hvað maður er orðinn gleyminn.
1.11.2008 | 23:33
Áhyggjur
Ég veit ekki hvort ég þori að fara á nýju Bond-myndina. Hún hefur fengið nokkuð misjafna dóma - í dag sagði gagnrýnandi Sky að Quantum of Solace væri dúndur-hasarmynd ... en alls ekki James Bond-mynd. Hún væri miklu líkari mynd með Jason Bourne og lítill munur væri á Daniel Craig og Matt Damon.
Myndirnar um Jason Bourne eru skemmtilegar, þó að hasarinn sé á köflum svo mikill að maður á fullt í fangi með að fylgjast með. Svoleiðis mega Bond-myndir ekki vera. Bond verður að fá að dreypa á hristum vodka martini, brosa út í annað, gilja konur, daðra við Moneypenny og kynna sér nýjustu uppfinningar hins snjalla Q. Já, ég veit að ég er gamaldags, en svona hefur Bond alltaf verið og þannig vil ég hafa hann áfram. Vanti þetta er Bond ekki Bond.
Annars finnst mér að James Bond hafi átt að fá að eldast. Hann fékk að eldast með Sean Connery og síðan Roger Moore, en eftir 1985 tók karlinn upp á því að yngjast og gerðist auk þess alvörugefnari. Ég verð að játa að ég er ekkert yfir mig hrifinn af því hvernig Daniel Craig fer með hlutverkið og er ég þó ekki sérlega vandlátur á Bonda. Þeir hafa allir verið góðir - Roger Moore bestur (og fjarri sanni að hann hafi breytt Bond í trúð, enda var hann sá sem Ian Fleming vildi fá í hlutverkið), en hinir litlu síðri. Nei, Timothy Dalton er ekki undanskilinn. Hann var fínn Bond á erfiðum tímum fyrir kvennabósa.
Ég legg enn og aftur til að Roger Moore eða Sean Connery verði fenginn til að leika Bond á gamals aldri. Oft er það gott sem gamlir kveða og ég held að það sé fjarstæða að aldurhniginn njósnari myndi fæla gesti frá því að mæta í bíó. Indiana Jones er til dæmis enginn unglingur lengur, en laðar að gesti á öllum aldri. Og man einhver eftir Equalizer? Einhverjum vinsælasta sjónvarpsþætti níunda áratugarins? Ekki var karlinn sá neitt unglamb en aðdáendur hans voru hins vegar margir ungir að árum.
Framleiðendur Bond-myndanna mega víst ekki nota persónuna Blofeld - sem er synd og skömm. Það væri meira en lítið gaman að sjá þá erkióvinina kljást á efri árum.
Auk þess legg ég til að skipulögð verði mótmæli gegn öllum þessum mótmælum.
22.10.2008 | 21:34
Yndislegar ekkifréttir
Ég hef áður haft á orði að alls kyns ekkifréttir væru stundum áberandi í fjölmiðlum og fremur agnúast út í þær en hitt, en stundum eru þær krydd í tilveruna, ekki síst þegar illa árar og veröldin er full af vondum fréttum.
Á visir.is eru birtar yndislegar ekkifréttir. Þær koma inn nokkrum sinnum á dag og eru hver annarri betri. Meðal þess sem boðið var upp á í dag má nefna:
"Óförðuð aðþrengd eiginkona sjokkerar - myndir."
"Kelin Reese Witherspoon - myndir."
"Sokkabuxur Söruh Jessicu Parker - myndir."
Og rúsínan í pylsuendanum:
"Eyrnamergur Keanu Reeves áberandi - myndir."
Þegar maður hefur fengið sig fullsaddan af fjármálafréttunum er gráupplagt að líta yfir ekkifréttirnar af fræga fólkinu á Vísi. Þær bæta, hressa og kæta.
22.10.2008 | 19:17
Góð grein hjá Kollu
Í Morgunblaðinu í dag er frábær lítil grein eftir Kolbrúnu Bergþórsdóttur blaðamann. Alveg er ég hjartanlega sammála hverju orði sem þar stendur.
18.10.2008 | 17:19
Gott að fólk skuli vera úti í góða veðrinu
Mikið er nú fallegt af þessu góða fólki að sjá erlendu fjölmiðlunum fyrir ekkifréttum og styrkja þannig ímynd Íslendinga út á við á erfiðum tímum.
Hvað er þetta nú aftur kallað? Já, að skemmta skrattanum. Alveg rétt.
Ég er ekki viss um að ég endurheimti spariféð mitt þótt seðlabankastjórinn segi af sér.
Bakarinn er eflaust ekki gallalaus en væri ekki upplagt að menn einbeittu sér frekar að því að taka í lurginn á smiðnum? Svona við tækifæri, þegar um hægist og öll kurl verða komin til grafar?
![]() |
Mótmæla Davíð Oddssyni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.10.2008 | 19:30
Gegnsýrður
Ég held ég ætti að fara að gera eitthvað annað en fylgjast með fréttum.
Á vefnum í dag las ég fyrirsögn þar sem fram kom að enn væri verið að leita að íslenskri krónu. Þegar ég hafði sett upp réttu gleraugun kom í ljós að leitað var að íslenskri konu.
Rétt fyrir fréttir í kvöld heyrði ég sungið á íslensku í útvarpinu: "Ég held ég hafi gengið of lágt." Ég var búinn að hlusta á þessa laglínu margoft þegar ég áttaði mig á því að söngvarinn taldi sig hafa gengið of langt.
Ég ætla að setjast niður í kvöld, gleyma öllum fréttum og horfa á góðan krimma. Vona bara að viðfangsefni lögreglumannanna verði ekki fjárglæfrar og fjármálasukk.
4.10.2008 | 14:02
Æsispennandi kvöld í vændum
Hugmyndaauðgi manna hjá ríkissjónvarpinu eru engin takmörk sett.
Í kvöld hefur göngu sína "nýr" þáttur sem ber hið frumlega heiti "Gott kvöld". Umsjónarmaður er Ragnhildur Steinunn (til hvers að fá nýtt fólk þegar hægt er að nota starfsmenn sem hafa gert þetta mörgþúsund sinnum?) og fyrsti gesturinn er álíka frumlegur og heitið: Bubbi Morthens.
Ég held vart vatni af spenningi.