Færsluflokkur: Bloggar

Bræla á bílastæðinu

Á minni stuttu leið að biðstöð strætisvagnsins í morgun gekk ég framhjá tveimur bílum, sem mannlausir voru í gangi á bílastæði fyrir framan hús eigenda sinna.

Annar var nýlegur, japanskur stórjeppi, hinn gamall fólksbíll.

Það var slydduhraglandi en frostlaust.

Eftir að ég var kominn út úr mengunarbrælunni velti ég fyrir mér hvers vegna svona lagað tíðkaðist ennþá hér á landi voru.

Fólksbíllinn gengur áreiðanlega fyrir bensíni, en ég hélt að sú tíð væri löngu liðin að ræsa þyrfti jeppa með dísilvélar nokkru fyrir áformaða brottför.

Þola eigendur ökutækjanna illa kulda? Eða nenna þeir ekki að klæða sig almennilega?

Hvað gera þeir þá þegar vetrar fyrir alvöru?

Blessaðir mennirnir.


Breik óskast

Nei, nei, það var ekkert verið að bjarga íslenskum almenningi frá því að missa spariféð sitt.

Nei, nei, það var ekkert verið að koma í veg fyrir að banki, sem er risastór á íslenskan mælikvarða, færi á hausinn.

Nei, nei, ríkið keypti bara Glitni af því að Davíð vildi hefna sín á Baugsmönnum!

Eitt stórt samsæri, eins og fyrri daginn!

Af hverju björguðu eigendurnir ekki bankanum, fyrst inngrip ríkisins voru ekki nauðsynleg?

Give me a break.

 


Norðlenskur alþjóðaflugvöllur

Þó að einhverjir sveitungar mínir brigsli mér ef til vill um landráð fyrir vikið verð ég að taka undir margt af því sem Friðrik Sigurðsson segir í stuttri grein í Morgunblaðinu í dag. Greinin fjallar m.a. um kosti flugvallar í Aðaldal umfram flugvöllinn við Akureyri, ekki síst með tilliti til millilandaflugs.

Aðaldalsflugvöllur hlýtur að vera öruggari kostur að mörgu leyti, ekki síst að því er varðar veðurskilyrði. Og ekki skiptir 30 mínútna akstur (um Vaðlaheiðargöng) Akureyringa miklu máli. Annað eins hafa nú Reykvíkingar þurft að þola í áranna rás. Líklega þætti Siglfirðingum og Skagfirðingum verra að þurfa að aka austur í Aðaldal, en allt er þó betra en þurfa ævinlega að keyra alla leið suður á Miðnesheiði.

Ég get ekki annað en tekið undir óskir um að gerð millilandaflugvallar í Aðaldal verði tekin til rækilegrar skoðunar. Þó að ég sé enginn flugmálasérfræðingur, langt í frá, yrði ég ekki hissa þótt einhverjir flugmenn væru mér sammála.


Árinn!

Ég var klukkaður. Alltaf hélt ég að ég slyppi ... Crying

Fjögur störf sem ég hef unnið: grunnskólakennari, forstöðumaður, dagskrárgerðarmaður, verkamaður.

Fjórar bíómyndir: Bed And Breakfast, A Shock To The System, The Whales Of August, The Usual Suspects.

Fjórir staðir sem ég hef búið á: Akureyri, Kingston í Ontaríó, Kópavogur, Laugar í Sælingsdal.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar: A Touch Of Frost, Inspector Morse, Waking The Dead, Shaun The Sheep.

Fjórar síður sem ég skoða daglega, fyrir utan blogg: mbl.is, Facebook, msn.com, akureyri.net.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum: Danmörk, Portúgal, Belgía, Bretland.

Fjórir uppáhaldsréttir: Fiskur í margs konar mynd, grænmetisréttur eiginkonunnar, grjónagrautur, nautalund.

Fjórar bækur: Nýja testamentið, Ensk-íslensk orðabók, Íslandsklukkan, Death Comes For The Archbishop.

Fjórir óskastaðir akkúrat núna: Ontaríó í Kanada, Belgía, England, Dalir.


Virðingarleysi

Þörf var umfjöllun Ragnhildar Sverrisdóttur í Morgunblaðinu um helgina um virðingarleysi fyrir lögreglunni. Þetta er þjóðarvandi. Ég veit ekki af hverju hann stafar. Varla af því einu að við erum orðin mjög upptekin af að horfa á þriðja flokks bandarískar bíómyndir og tölvuleiki - sem, vel að merkja, endurspegla ekki daglegt líf venjulegs fólks í því ágæta landi?

Að því er unga fólkið varðar hlýtur ábyrgðin að vera foreldranna að einhverju leyti. Ef til vill skólanna að vissu marki. En þegar fullorðið fólk og roskið er farið að veitast að lögreglu með munnsöfnuði, hótunum og jafnvel líkamlegu ofbeldi er eitthvað verulega mikið að.

Íslendingar eru víðkunnir fyrir þá lífsskoðun sína að það sé í lagi að brjóta lög meðan það komist ekki upp. Hvergi er þetta greinilegra en í umferðinni, en því miður virðist þetta vera hraustlega innbyggt í þjóðarsálina síðan á dögum sauðaþjófanna. Við erum líka dugleg við að setja alls kyns lög og reglur án þess að hugsa út í að þeim þurfi að framfylgja. Þetta veit almenningur, enda er fámennri stétt lögreglumanna ofviða að fylgjast með að öll lög séu alls staðar virt. Svo fýkur bara í okkur ef við erum staðin að verki og við látum fúkyrðin - jafnvel höggin - dynja á sendiboðunum.

Ég veit ekki hvort aðfarir lögreglunnar suður með sjó á dögunum voru harkalegar. Ég var ekki á staðnum og þekki ekki til. Lögreglan verður vitaskuld að sýna fólki tilhlýðilega virðingu og á auðvitað ekki virðingu skilið ef hún beitir saklausa borgara yfirgangi og fantaskap. Hitt veit ég að ég er ekki hlynntur því að fólk komist upp með að villa á sér heimildir og beita svikum og prettum. Í landinu gilda lög og eftir þeim eigum við að fara.

Öll.

 


Gamalt hatur á gömlum belg

Enn virðist sem Illugi Jökulsson nærist á gömlu og úldnu hatri í garð Davíðs Oddssonar. Það er fyrir löngu orðið sorglegt að lesa pistlana hans. Hér áður fyrr var piltur oft beinskeyttur og ýfði fjaðrir og stráði jafnvel salti í sár, en sá tími er löngu liðinni. Menn geta haft ýmsar skoðanir á Davíð og öðrum stjórnmálamönnum og rætt þær á opinberum vettvangi, en það er því miður ekkert í þessum pistlum Illuga lengur nema einhver sjúkleg fæð. Og engu breytir þótt Davíð hafi fyrir löngu skipt um starf.

Þeir sem þekkja mig vita að ég hef í áranna rás ekki verið yfir mig hrifinn af manninum sem nú situr á Bessastöðum og að ég held alveg vatni yfir vitleysisganginum í konunni hans. En ég ætti ekki annað eftir en láta þann dulitla kala sem ég ber til fjármálaráðherrans fyrrverandi - síðan hann gekk á bak orða sinna og ógilti eigin samninga við háskólamenn si svona - stjórna lífi mínu.

Ég vona að aðdáun mín á merkisfólki eins og Laufeyju Jakobsdóttur, Pétri Sigurgeirssyni og öllu því góða fólki sem vinnur að friði og kærleika og kærir sig ekki um athygli fyrir störf sín að mannúðarmálum verði fremur til þess að stýra lífi mínu og gjörðum en gamalt óþol eða ofnæmi fyrir einstökum stjórnmálamönnum.

 


Dittinn og dattinn

Jæja, þá er Jerry Reed allur - einn af þessum vanmetnu listamönnum. Á spilarann hef ég sett lag þar sem hann syngur gamalt og gott lag og nýtur aðstoðar gítarsnillingsins Chets Atkins.

Ég verð að játa að ég fylgist talsvert spenntur með framboðsmálunum vestur í henni Amiríku. Ekki líst mér nema miðlungi vel - og tæplega það - á varaforsetaefni repúblikana. Hún virðist assgoti afturhaldssöm, konan sú.

Þá er maður hættur útvarpsmennskunni i bili - það var afar gaman að sjá um tónlistarþáttinn Látún á Rás 1, ekki síst vegna þess hvað maður lærir mikið og uppgötvar margt við rannsóknarvinnuna. Ég vissi til dæmis ekki að Rosemary Clooney (sem er líka hérna á spilaranum) hefði barist við geðhvörf árum saman og látið stórar fjárhæðar af hendi rakna til endurhæfingar heilaskaðaðra ungmenna. Mér datt heldur ekki í hug, áður en ég fór að vinna þáttinn um Lenu Horne, að sú góða kona væri enn á lífi. Og ekki vissi ég að James Last hefði unnið með hipphoppurum.

Það hefur verið ákaflega fagurt síðsumar- og haustveður hér nyrðra síðustu daga. Vonandi verður framhald á. Haustið er yndislegur árstími - þegar það er gott.rosemary

 

 

 

 


Of góður og fínn fyrir kaffe og sjokólaðe

"Má ekki bjóða þér meira kaffi?"

"Nei, takk, ég er góður."

"En viltu kannski súkkulaðimola?"

"Nei, ég er fínn."

Ég skildi ekki af hverju gesturinn hafnaði kaffinu á þeim forsendum að hann væri góður. Má gott fólk ekki drekka mikið kaffi?

Gestur minn var heldur ekki tiltakanlega fínn, en svo sem ósköp snyrtilegur, í gallabuxum og stuttermaskyrtu. Of fínn fyrir súkkulaðið, samt, hvernig svo sem stóð á því.

Smile


Spáð íðessu

Ég veit aldrei hvort ég á að hlæja eða gráta þegar ég heyri fólk spá í einhverju. Er þetta áhrifsbreyting frá "velta einhverju fyrir sér" eða "pæla í einhverju"? Jafnvel fólk, sem komið er til vits og ára, spáir í hinu og þessu.

Mér leiðist að vera leiðinlegur en verð að segja að þetta finnst mér alveg hreint einstaklega leiðinlegt. Ég er alinn upp við að spá í eitthvað og hitt og þetta og enn hef ég, sem betur fer, ekki heyrt talað um spákonur sem spá í bollanum eða spilunum.

Lýsi hér með eftir fólki sem er til í að spá í þolfall með mér.


Margt býr í þokunni

Á leiðinni í vinnuna í morgun rölti ég eins og oftast eftir fallega göngustígnum sem liggur frá Hrísalundi að Háskólanum á Akureyri. Það var þoka, en þó ekki svalt, mælirinn heima sýndi 15 stig. Hér hefur ekki rignt neitt að ráði um skeið og því var rakinn kærkominn.

Þegar ég lallaði eftir stígnum fann ég alls konar angan. Fyrst ilminn af birkinu, sem er ólýsanlega góður. Svo tóku við víðirunnar, sem líka ilmuðu, og þar á eftir furulundur, sem ilmaði yndislega. Þegar trjánum sleppti fékk ég að njóta anganinnar af vallhumlinum sem vex meðfram gangstéttinni.

Já, margt býr í þokunni og ekki allt slæmt. Það uppgötvaði ég í morgun. Og það er sama hvað maðurinn reynir, aldrei mun honum takast að búa til ilm sem jafnast á við þann sem náttúran framleiðir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband