Færsluflokkur: Bloggar
23.7.2008 | 13:25
Ferðir og ferðalög
Mig langar til Vesturheims næsta sumar og er þegar farinn að bíða þess að flugfélög og ferðaskrifstofur kynni hvað boðið verður upp á í þá áttina. Ég óttast að verðhækkanir á eldsneyti og fjárkröm landsmanna (og raunar fleiri þjóða) verði til að minnka framboð á flugferðum, en er þó ennþá vongóður.
Trúlega verður framhald á flugi til New York og Boston og ólyginn sagði mér að líka yrði flogið til Toronto og Minneapolis næsta sumar. Ekki veit ég um Halifax, en vona það besta. (Ég tel Orlandó ekki með, enda fýsir mig ekki á svo suðrænar slóðir um hásumar). Svo vona ég líka að Heimsferðir haldi áfram að fljúga til Montreal. Þær ferðir hafa verið á fínu verði og oft langódýrasti kosturinn fyrir landann að skjótast westur. Hins vegar óttast ég að samanskreppun í ferðalögum verði til þess að þessar ferðir leggist af. Held þó enn í vonina.
Ég vona líka að Iceland Express haldi áfram beinu flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar (og helst milli Akureyrar og Lundúna líka) og að Icelandair bjóði Akureyringum áfram upp á flug með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. Það er algerlega ómetanlegt að geta gengið að þessum ferðum vísum á sumrin - verst þær eru ekki á vetrin, eins og maðurinn sagði.
22.7.2008 | 21:45
Kýrhausinn
Margt er skrýtið í kýrhausnum.
Rómantíkin er til dæmis gengin aftur. Nú hafa popparar gerst rómantískir og halda því fram að landið okkar sé ósnortið.
Nú má hvergi virkja. Jafnvel djöfullegustu fúafen eru orðin náttúruperlur.
Popparar benda hver á annan og skora á næsta mann að syngja gegn fátækt í stað stóriðju. Ég legg til að þeir syngi gegn hlutabréfaviðskiptum.
Svo á að halda rómantíska og elskulega fjölskylduhátíð í bænum mínum um verslunarmannahelgina. Samt eiga skemmtistaðir að vera opnir til klukkan fimm að morgni og unglingadansleikir að standa yfir til klukkan þrjú að nóttu.
Einkennilegt fjölskyldulíf það. En kannski orðið norm í okkar firrta tvískinnungsþjóðfélagi?
14.7.2008 | 12:05
Vinur Iceland Express
Ég er mikill vinur Iceland Express. Ég hef flogið með félaginu nokkrum sinnum og hef af því ágæta reynslu. Ég er ánægður með að til skuli vera sterkt félag sem veitt getur Icelandair almennilega samkeppni. Mér er ekki illa við Icelandair, síður en svo, og hef notið ágætrar þjónustu þess í áranna rás, en tel að betri séu tvö félög en eitt.
Hins vegar hefur það gerst á undanförnum vikum að farþegar Iceland Express hafa verið að kvarta undan félaginu, einkum seinkunum og afleiðingum þeirra. Í því máli sé ég ekki betur en að einn höfuðvandinn sé upplýsingafulltrúi félagsins, en ef rétt hefur verið vitnað í hann í dag og á síðustu vikum þarf hann að læra svolítið meira í almennum samskiptum og mannasiðum.
Upplýsingafulltrúinn hleypur strax í vörn fyrir félagið og segir fólki nánast að það verði að bíta í sitt súra epli og kyngja mótlætinu. Svoleiðis viðbrögð auka ekki vinsældir fyrirtækis. Ekki þarf annað en segja að félaginu þyki þetta leitt og það biðji farþega afsökunar á óþægindunum til að létta fólki lund og ýta undir jákvætt viðhorf til félagsins.
Ég vona að ég verði áfram mikill vinur Iceland Express. En þá verður fyrirtækið að hætta að hreyta ónotum í viðskiptavini sína og fara svolítið betur að þeim. Annars leitar fólk annað.
9.7.2008 | 17:10
Vonbrigði
Mikið varð ég glaður þegar ég sá þessa fyrirsögn ... þangað til ég las fyrstu línur fréttarinnar og uppgötvaði að hér var ekki verið að tala um gervallan landslýð, heldur aðeins fáeina verkamenn í víngarði Drottins.
Og ég sem var alveg viss um að þetta væri hann Geir Hilmar Haarde að færa okkur sumargjöf með almennri tilskipun um styttri vinnudag!
![]() |
Vinnudagurinn styttur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2008 | 18:33
Hvar eru reynsluboltarnir í fjármálaheiminum?
Ég fór með son minn til tannlæknis um daginn. Það var verið að skoða hvort hann þyrfti e.t.v. á tannréttingum að halda. Tannréttingameistarinn skoðaði hann vel og vandlega og var nokkuð efins, sagði að ómögulegt væri að spá fyrir um hvað framtíðin bæri í skauti sér hvað vöxt tannanna snerti og stefnu þeirra. Ég spurði hann þá í gríni hvort hann væri ekki með greiningardeild, svona eins og bankarnir, sem gæfu út spádóma um strauma og stefnur í tannvaxtamálum með reglulegu millibili. Brosti þá tannlæknirinn og sagði svo ekki vera, en þó væri hann hámenntaður maður í faginu, væri meira að segja kennari í því, og byggi þar að auki yfir þrjátíu ára reynslu. "Ef einhver ætti að geta greint svona nokkuð þá er það ég," sagði hann svo, næstum afsakandi.
Hvað með bankana og fjármálastofnanirnar? Sumir þeirra, sem birtast á skjánum, eru barnungir. Eflaust sprenglærðir, en geta ekki verið annað en reynslulitlir, aldurs síns vegna. Þeir hafa eflaust haft góða kennara, en ekki er ég viss um að kennararnir, sérstaklega ef viðkomandi greinandi hefur lært erlendis, hafi allir haft mikla þekkingu á íslensku efnahagslífi. (Þá eru sumir greinendur bankanna svo óskýrmæltir og illa talandi að þá þyrfti helst að texta, blessaða, þegar þeir birtast á skjánum, en það er önnur saga).
Ég fór að velta þessu fyrir mér. Skiptir reynslan engu máli í fjármálastofnununum lengur? Af hverju er ungt fólk og reynslulítið látið segja okkur hvernig það heldur að framtíðin verði? Hvar eru reynsluboltarnir? Er kannski búið að reka þá alla saman, af því að þeir eru svo dýrir starfsmenn? Spyr sá sem ekki veit ...
Hitt veit ég, að ég tek meira mark á þrautreyndum refum í efnahagsmálum, ekki síst þeim sem þekkja fátækt af eigin raun, en góðlegu fólki sem eflaust veit hvað það syngur en hefur enn ekki migið í hinn salta sjó reynslunnar.
2.7.2008 | 09:43
Sælt er sameiginlegt skipbrot
Fyrir tuttugu og fimm árum fékk ég sekt sem ég var mjög ósáttur við - og er enn. Ég brá mér í bíó á Akureyri að kvöldlagi og lagði bílnum mínum í stæði sem merkt var Strætisvögnum Akureyrar, en þar sem vagnarnir voru hættir að ganga þann daginn taldi ég óhætt að geyma bílinn minn þar meðan ég færi í bíó.
Það reyndist nú aldeilis misskilningur.
Þegar ég kom út beið mín sektarmiði á framrúðunni. Ég fór strax daginn eftir til sýslumanns og ræddi við fulltrúa hans, sagði honum hvers kyns var og ég væri ósáttur með að fá sektina. Spurði hvort laganna verðir hefðu virkilega ekkert betra að gera en að eltast við svona lagað.
Fulltrúi sýslumanns sagðist því miður ekkert geta gert. Eftir talsvert japl, jaml og fuður fór ég niður á næstu hæð og greiddi sektina, en hélt síðan heim með lafandi skottið, hryggur og reiður í hjarta.
Nú hafa augu mín opnast. Auðvitað á ég ekki að una svona meðferð. Þennan blett á flekklitlum ferli mínum verð ég að afmá þegar í stað.
Nú ætla ég að finna árans lögregluþjóninn sem skrifaði sektina, þó að það kunni að taka mig marga mánuði, og sýna kauða í tvo heimana. Síðan kemur röðin að sýslumannsfulltrúanum - og ég man vel hvað hann hét. Ætli ég verði ekki svo ekki að taka sýslumanninn til bæna og loks dómsmálaráðherrann þáverandi, enda er ég með afbrigðum ósáttur og óánægður með embættisfærslur og framkomu allra þessara manna í málinu. Ég ætla að fara fram á verulegar skaðabætur og að gjörðir mannanna verði skoðaðar ofan í kjölinn. Skaðabæturnar ætla ég að nota til að kaupa brauð og gefa öndunum, því að ég er vinur fuglanna og fáir, ef nokkrir, hafa lagt jafn mikið af mörkum og ég til að bæta kjör þeirra, enda stæri ég mig af því hvenær sem ég fæ tækifæri til.
Ég vona bara að málið teljist ekki fyrnt ...
![]() |
Jóhannes Jónsson í Bónus undirbýr kæru vegna Baugsmálsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.6.2008 | 23:49
Reykjanesskagi
Fór um Reykjanesskagann fyrir nokkrum dögum, alla leið frá Þorlákshöfn vestur um til Keflavíkur, þaðan hringinn um Garð og Sandgerði og nýja Ósabotnaveginn, svo eftir hefðbundnu leiðinni til Reykjavíkur og þaðan austur um Þrengsli til Eyrarbakka, þar sem við eldri sonur minn dveljumst þessa dagana.
Veðrið var dásamlegt og Reykjanesskaginn skartaði sínu fegursta. Ýmislegt vakti þó athygli mína annað en náttúrufegurðin, til dæmis það hversu margt er illa eða alls ekki merkt. Ég kom t.d. skilti sem á stóð "Arnarker"og hjá því merkið athyglisverður staður. Engar frekari upplýsingar var þar að finna. Engin gönguslóð, ekkert sem gaf til kynna hvað þetta væri for noget og hvort þetta mýstíska ker væri tuttugu metra frá vegi eða tvö hundruð.
Um allan skagann liggja vegir og slóðar hingað og þangað, ómerktir eða illa merktir. Ómögulegt er að segja hvert þeir leiða mann, enda tókum við feðgar snemma þá ákvörðun að hunsa hliðarvegi með öllu. Verra er þó að nýi Ósabotnavegurinn er með öllu ómerktur. Raunar finnst mér nafngiftin hálfgert rangnefni þar sem vegurinn liggur svo langt frá Ósabotnum að maður nýtur þeirra alls ekki þaðan. En gaman var að fara þessa leið engu að síður.
Við komum að álfubrúnni og munaði minnstu að við færum framhjá henni, þar sem ekkert skilti er fyrir vegfarendur sem koma sunnan að. Ef til vill er almennt talið að ferðamenn komi aðeins að brúnni frá Keflavík.
Eru þá neikvæðu punktarnir upptaldir en þeir jákvæðu eru sem betur fer miklu fleiri. Óskaplega gaman var að koma að Garðskagavita, þar sem staðsetning byggðasafns og tjaldstæðis er einkar skemmtileg, og sömuleiðis á Stafnes, sem er hreint dýrðlegur staður. Syni mínum þótti gaman í Krýsuvík og við skemmtum okkur líka ágætlega við Reykjanesvita, en þangað hef ég ekki komið óralengi. Áður hef ég minnst á glæsilega inniaðstöðu fyrir brettamenn í Keflavík og heimamenn mega líka vera ánægðir með sundlaugina sína, sem er mjög skemmtileg.
Reykjanesið er stórlega vanmetin ferðamannaslóð og ég er harðákveðinn í að fara þangað sem allra fyrst aftur og gefa mér góðan tíma. Ég vona bara að merkingarnar verði orðnar fleiri og betri þá.
24.6.2008 | 00:09
Brettadagur
Á laugardaginn var hjólabrettadagur. Við eldri sonur minn, sem er tólf ára, vorum staddir í Reykjavík og hafði piltur beðið þessa dags með nokkurri eftirvæntingu. Hjólabrettafólk hittist við Hallgrímskirkju eftir hádegið og brunaði svo eftir Laugaveginum niður á Ingólfstorg þar sem það lék listir sínar fram eftir degi.
Það var óskaplega gaman að fylgjast með krökkunum. Þarna voru fullorðnir menn og smábörn en aðallega stálpaðir krakkar, unglingar og ungmenni og allir í besta skapi. Það allra skemmtilegasta við þessa íþrótt er, held ég, hvað allir virðast jafnir. Fáum brettamönnum dettur í hug að sýna yfirgang þeim sem eru yngri eða kunna minna.
Freyr, sonur minn, naut sín út í æsar. Hann er orðinn ári fær á brettinu, drengurinn. Í dag fórum við svo til Keflavíkur og könnuðum Svartholið, inniaðstöðu brettamanna þar. Á úrkomusömum eða snjóþungum dögum öfunda akureyrskir brettamenn Suðurnesjamenn svo sannarlega af þessari stórglæsilegu aðstöðu. Útiaðstaðan fyrir norðan er án efa einhver sú besta á landinu en það er synd að hvorki Akureyri né höfuðborgarsvæðið (eftir að Loftkastalinn hrundi) skuli hafa búið brettafólki viðunandi inniaðstöðu.
Hjólabrettaiðkun er mikil íþrótt og holl hreyfing. Ekki hættulaus, frekar en aðrar íþróttir, en afskaplega skemmtileg að horfa á. Aðstaðan þarf ekki að vera fullkomin en mér finnst mikils virði að unga fólkið hreyfi sig með þessum hætti og skemmti sér og bægi um leið burt hamborgararössunum og pítsukinnunum sem gert hafa aðsúg að okkur Íslendingum á síðustu áratugum.
19.6.2008 | 18:16
Fonz
Þegar ég heyri þetta fyrirtæki nefnt dettur mér alltaf í hug hann Fonz (Fonzie), persóna sem Henry Winkler lék í gamanþáttunum Happy Days, einhverju vinsælasta og langlífasta gamanefni sem sýnt hefur verið í sjónvarpi fyrir westan. Þar var Ron Howard, síðar frægur kvikmyndaleikstjóri, líka meðal aðalleikenda.
Kannski ég fari á stúfana og athugi hvort ég get keypt nokkra þætti með Fons ... fyrirgefið, Fonz. Þeir voru svo sem ekki merkilegir en komu manni alltaf í gott skap.
![]() |
Hæstiréttur staðfestir sýknu Fons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.6.2008 | 21:43
A flourishing behind? A blooming butt?
![]() |
Ánægð með blómlegan afturenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |