Brettadagur

Á laugardaginn var hjólabrettadagur. Við eldri sonur minn, sem er tólf ára, vorum staddir í Reykjavík og hafði piltur beðið þessa dags með nokkurri eftirvæntingu. Hjólabrettafólk hittist við Hallgrímskirkju eftir hádegið og brunaði svo eftir Laugaveginum niður á Ingólfstorg þar sem það lék listir sínar fram eftir degi.

Það var óskaplega gaman að fylgjast með krökkunum. Þarna voru fullorðnir menn og smábörn en aðallega stálpaðir krakkar, unglingar og ungmenni og allir í besta skapi. Það allra skemmtilegasta við þessa íþrótt er, held ég, hvað allir virðast jafnir. Fáum brettamönnum dettur í hug að sýna yfirgang þeim sem eru yngri eða kunna minna.

Freyr, sonur minn, naut sín út í æsar. Hann er orðinn ári fær á brettinu, drengurinn. Í dag fórum við svo til Keflavíkur og könnuðum Svartholið, inniaðstöðu brettamanna þar. Á úrkomusömum eða snjóþungum dögum öfunda akureyrskir brettamenn Suðurnesjamenn svo sannarlega af þessari stórglæsilegu aðstöðu. Útiaðstaðan fyrir norðan er án efa einhver sú besta á landinu en það er synd að hvorki Akureyri né höfuðborgarsvæðið (eftir að Loftkastalinn hrundi) skuli hafa búið brettafólki viðunandi inniaðstöðu.

Hjólabrettaiðkun er mikil íþrótt og holl hreyfing. Ekki hættulaus, frekar en aðrar íþróttir, en afskaplega skemmtileg að horfa á. Aðstaðan þarf ekki að vera fullkomin en mér finnst mikils virði að unga fólkið hreyfi sig með þessum hætti og skemmti sér og bægi um leið burt hamborgararössunum og pítsukinnunum sem gert hafa aðsúg að okkur Íslendingum á síðustu áratugum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Takk fyrir síðast. Þú átt bara mjög efnileg börn.

Hólmdís Hjartardóttir, 24.6.2008 kl. 00:13

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband