Hvar eru reynsluboltarnir í fjármálaheiminum?

Ég fór með son minn til tannlæknis um daginn. Það var verið að skoða hvort hann þyrfti e.t.v. á tannréttingum að halda. Tannréttingameistarinn skoðaði hann vel og vandlega og var nokkuð efins, sagði að ómögulegt væri að spá fyrir um hvað framtíðin bæri í skauti sér hvað vöxt tannanna snerti og stefnu þeirra. Ég spurði hann þá í gríni hvort hann væri ekki með greiningardeild, svona eins og bankarnir, sem gæfu út spádóma um strauma og stefnur í tannvaxtamálum með reglulegu millibili. Brosti þá tannlæknirinn og sagði svo ekki vera, en þó væri hann hámenntaður maður í faginu, væri meira að segja kennari í því, og byggi þar að auki yfir þrjátíu ára reynslu. "Ef einhver ætti að geta greint svona nokkuð þá er það ég," sagði hann svo, næstum afsakandi.

Hvað með bankana og fjármálastofnanirnar? Sumir þeirra, sem birtast á skjánum, eru barnungir. Eflaust sprenglærðir, en geta ekki verið annað en reynslulitlir, aldurs síns vegna. Þeir hafa eflaust haft góða kennara, en ekki er ég viss um að kennararnir, sérstaklega ef viðkomandi greinandi hefur lært erlendis, hafi allir haft mikla þekkingu á íslensku efnahagslífi. (Þá eru sumir greinendur bankanna svo óskýrmæltir og illa talandi að þá þyrfti helst að texta, blessaða, þegar þeir birtast á skjánum, en það er önnur saga).

Ég fór að velta þessu fyrir mér. Skiptir reynslan engu máli í fjármálastofnununum lengur? Af hverju er ungt fólk og reynslulítið látið segja okkur hvernig það heldur að framtíðin verði? Hvar eru reynsluboltarnir? Er kannski búið að reka þá alla saman, af því að þeir eru svo dýrir starfsmenn? Spyr sá sem ekki veit ...

Hitt veit ég, að ég tek meira mark á þrautreyndum refum í efnahagsmálum, ekki síst þeim sem þekkja fátækt af eigin raun, en góðlegu fólki sem eflaust veit hvað það syngur en hefur enn ekki migið í hinn salta sjó reynslunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hér er líklega best að vitna til orða Winston Churchill sem hljóðuðu einhvernveginn (ekki orðrétt) á þessa leið):  Góður stjórnmálamaður þarf að geta sagt til um það hvernig hlutirnir þróast og verða eftir nokkur ár.  Eftir nokkur ár þarf hann svo að geta útskýrt hvers vegna þeir fóru ekki á þann veg.

Er því ekki svipað farið með starfsfólk "greiningardeildanna"?

G. Tómas Gunnarsson, 5.7.2008 kl. 03:36

2 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

njóttu sumarblíðunnar......ekki get ég svarað spurningunni

Hólmdís Hjartardóttir, 5.7.2008 kl. 19:31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband