Skemmtileg brella bæjarstjórnarmeirihlutans

Mikið asskoti rakst ég á skemmtilega auglýsingu áðan.

Hún er um opinn íbúafund um staðsetningu nýs hjúkrunarheimilis á Akureyri, sem gamla bæjarstjórnin hafði á sínum tíma ákveðið að ætti að rísa í Naustahverfi.

Nú, þegar Framsóknar-/Þórslisti fólksins er kominn til valda, er skyndilega boðið upp á "val" um tvo staði. Hinn staðurinn er í heimafylki Odds Helga, formanns bæjarráðs - í Síðuhverfi.

Og hvar er fundurinn haldinn? Í Síðuskóla, auðvitað (enda verður þá meiri von til þess að íbúar Naustahverfis nenni ekki að mæta).

Hver er meðal framsögumanna? Títtnefndur Oddur Helgi. Enginn annar bæjar- eða varabæjarfulltrúi er þar á meðal.

Oddur Helgi greiddi ábyggilega atkvæði gegn því á sínum tíma að hjúkrunarheimilið risi í Naustahverfi. Það þóttu út af fyrir sig allmerkileg tíðindi því að Oddur Helgi sat gjarnan hjá við afgreiðslu mála. Gott ef hann strengdi þess ekki líka heit einhvern tímann á bæjarstjórnarfundi í umræðum um kirkjugarða að aldrei skyldi hann láta jarða sig sunnan Glerár. Guð hjálpi honum þegar hann gerist gamall ef hjúkrunarheimilið verður nú reist (langt!) fyrir sunnan á!

Ég bý í Naustahverfi en mér er hjartanlega sama hvort hjúkrunarheimilið rís í túnfætinum hjá mér eða í mýrinni við Vestursíðu. Ég veit hins vegar ekki hvort ég á að hlæja eða gráta þegar ég sé svona kostulega auglýsingu. Ný vinnubrögð? Má ég þá frekar biðja um þau gömlu! Vitaskuld er löngu búið að ákveða hvar byggingin á að rísa. Naustahverfi var út úr myndinni um leið og úrslit sveitarstjórnarkosninganna urðu ljós.

Mestu máli skiptir þó að þeir, sem þurfa á hjúkrunarrýmunum að halda, fái gott og vandað húsnæði á fallegum stað, þar sem þeim líður vel, og að þangað takist að ráða gott og hæft starfsfólk.

En með svona auglýsingu beinist athyglin enn og aftur frá nauðsyn hjúkrunarrýmanna og að hinni ráðvilltu bæjarstjórn okkar sem ætti nú eiginlega að ráða sér brellumeistara, ætli hún að halda áfram á þessari braut.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband