Pakki frá sjónarhóli Evrópumanns

Ég er sjálfsagt gamaldags, en ef allir þingmenn Íslendinga (að frátöldum þingmönnum Miðflokksins, sem ég mun seint kjósa) treysta sér til að greiða atkvæði með innleiðingu þriðja orkupakkans er ég hlynntur henni.

Það kann vel að vera að sumum þyki það flokkast undir heimsku og barnaskap að treysta dómgreind 54 þingmanna af 63, en þá verð ég bara að lifa með því. Mér hefur því miður sýnst að "rökin" gegn innleiðingu orkupakkans séu oft í formi upphrópana og fúkyrða, enda hafa Íslendingar ævinlega verið færir um að mynda sér skoðun á málum án þess að kynna sér þau fyrst og verið tilbúnir að trúa þeim sem neikvæðastur er og hæst lætur.

Rök þeirra sem tala fyrir innleiðingu pakkans (sem allar hinar EES-þjóðirnar hafa þegar samþykkt) eru hins vegar yfirleitt málefnaleg og þar af leiðandi sannfærandi í mínum eyrum, hvort sem ég er nú barnalegur bjáni fyrir vikið eða ekki.

Einangrunarhyggja, hræðsluáróður, þjóðremba, popúlismi og falsfréttir verða æ stærra vandamál í íslensku samfélagi ekki síður en í útlöndum. Ekkert af þessu heillar mig, en því miður virðist vera hljómgrunnur sums staðar fyrir alls kyns neikvæðni og innantómum rembingi.

Það ætlar að ganga hægt að kveða niður draug Bjarts í Sumarhúsum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband