9.7.2007 | 20:37
Vandi
Mörg er búmanns raunin, segir gamall málsháttur. Það vakti einmitt athygli mína þegar ég renndi yfir fréttir í blöðum og á vefsíðum í dag hversu óskaplega margir virðast vera í vanda. Sjávarútvegurinn og sjómennirnir eru í vanda vegna yfirvofandi kvótaskerðingar, meira að segja heilu kaupstaðirnir, dómskerfið gæti lent í vanda vegna umdeilds sýknudóms í nauðgunarmáli (það hefur raunar marga fjöruna sopið í þeim efnum), og svo má lengi telja, en hæst ber þó, ef marka má fjölmiðlana, vanda alls kyns ung- og smástirna í sambandi við einkalíf sitt. Avril Lavigne er í vanda, Lindsay Lohan er í vanda, Paris Hilton er í vanda, Hilary Duff er í vanda. Og er ekki Britney Spears í eilífum vanda? Ég fæ ekki séð að mér verði svefnsamt næstu nætur. Ég hef áhyggjur af þessum stúlkum, ég verð að segja það.
Ja, nú er lag á Læk, hefði amma mín sagt. En skyldi svona vandi einskorðast við smástirni? Ég man nefnilega ekki til þess að hafa lesið neitt nýlega um stórstirni í vanda. Þurfa alvörustjörnur ef til vill ekki á því að halda, frama síns og frægðar vegna, að einkalíf þeirra sé til umræðu í fjölmiðlum? Það skyldi þó ekki geta hugsast að allri þessari neikvæðu athygli, sem smástirnin fá, sé handstýrt - eins og alls konar kvótum íslenskum? Þá er kannski ekki að furða þótt blessuð ungmennin séu í vanda...