Hættum þessu!

Las í Blaðinu í dag viðtöl við tvær stúlkur. Önnur á pólska móður, hin er frá Litháen. Báðar segja frá fordómum sem þær verða fyrir hér á Íslandi. Ég hef áður lesið og heyrt svipaðar frásagnir og það er því miður engum blöðum um það að fletta að býsna margir Íslendingar eru fordómafullir, fákunnandi og beinlínis dónalegir í garð útlendinga, einkum ef útlendingarnir eru frá löndum sem við þekkjum lítið til en þykjumst vita allt um.

Svona létum við líka við Færeyinga og Grænlendinga, en það hefur líklega breyst nokkuð, a.m.k. hvað þá fyrrnefndu snertir, trúlega vegna þess hversu margir Íslendingar hafa farið til Færeyja og kynnst þeirri merku þjóð. Grænlendingar búa enn við það, held ég, að teljast annars eða þriðja flokks þjóð hér á Fróni, bara vegna þess hvað við erum fávís og þröngsýn - og þar með fordómafull.

Hættum þessu. Þetta er nákvæmlega sama viðhorfið og Íslendingar kvörtuðu undan á árum áður. Þá fundum við, þegar við fórum utan, stundum fyrir fákunnáttu, fordómum og dónaskap, af því að það var almennt talið að hér byggi fátæk, fákunnandi þjóð sem væri hálfgerður baggi á „siðmenntuðu“ þjóðunum í kringum sig.

Og höfum við virkilega efni á að setja okkur á háan hest? Eru allir Litháar fíkniefnasmyglarar, kynlífssalar og morðingjar? Eru þá ekki allir Íslendingar náttúruspillar, mengarar og álrustar? Ég veit ekki betur en það sé almenn skoðun manna að flestir Pólverjar, Litháar og aðriir þeir sem hingað koma, t.d. úr sunnan- og austanverðri Evrópu, séu harðduglegt fólk og að mörgu leyti miklu betra vinnuafl en „innfæddir“ Íslendingar. Svo er menning þess miklu eldri en okkar og sagan stórbrotnari. Er það e.t.v. það sem fer svona í taugarnar á okkur? Að við sjáum að þrátt fyrir að efnahagurinn sé slæmur víða erlendis og atvinnuástandið líka er fólkið, sem frá þessum löndum kemur, okkur svo miklu fremra á margan hátt? Það skyldi þó aldrei vera.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband