Agureyri

Þegar ég fluttist með foreldrum mínum og systkinum norður til Akureyrar átta ára gamall - á móti straumnum, sem þá lá suður eins og í mörg ár á eftir - var ekki laust við að mér fyndist margt skrýtið í hinum norðlenska kýrhaus. Ég lenti í skóla sem var eins og úr grárri forneskju miðað við þann sem ég hafi gengið í fyrir sunnan og þar notuðu menn ýmsa einkennilega hluti, svo sem viskaleður og tálgara. Auk þess hét úlpa ýmsum undarlegum nöfnum fyrir norðan: stakkur, jakki og guðmávitahvað. Kennarinn minn var mjög í stíl við skólann. 06_akureyri_smallVitaskuld gerðu sumir skólafélaga minna stólpagrín að mínum reygvíska framburði en ég lærði smám saman að það borgaði sig að tala eins konar ríkisíslensku, hvorki of norðlenska né mjög sunnlenska, því að þá var mér hvorki strítt nyrðra né syðra!

Akureyri var sérstök og er að mörgu leyti enn. Þótt hún hafi samlagast mjög á síðustu árum og áratugum og sé ekki lengur eins og ríki í ríkinu með sína siði og venjur er ýmislegt sem vekur eftirtekt. Hér eru til dæmis nokkrar götur aðalbrautir í aðra áttina, en ekki hina. Það á víst að laga á næstunni, sé ekki búið að því, en sú aðgerð hefur tekið nokkra áratugi. Akureyringar hafa aldrei verið neitt að flýta sér þegar breytingar eru annars vegar.

Svo eigum við merkilegasta ráðhús í heimi. Það er nefnilega raðhús. Trúið þið mér ekki? Það stendur nú samt skýrum stöfum fyrir ofan dyrnar á ráðhúsinu okkar: RAÐHÚS. Ég bið ráðamenn bæjarins lengstra orða að fara nú ekki að leita að kommunni sem dottin er ofan af A-inu, því að þar með hefur Akureyri misst umtalsverða sérstöðu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: arnar valgeirsson

minnir mig nú pínu á þegar ég byrjaði í barnaskóla akureyrar já. kennarinn var sennilega jafn gamall skólanum en vænsti kall. og ég nýkominn frá reygjavíg.

það er sérdeilis fínt að hafa sérstöðu og þó ég hafi flutt burtu fyrir alllöngu er alltaf gaman að koma því bærinn er jú fallegur og snyrtilegur, vantar ekki.

hinsvegar finnst mér ráðamenn (eða raðamenn) oft vera að flýta sér dálítið upp á síðkastið. sveiattan. held það.

arnar valgeirsson, 30.7.2007 kl. 22:53

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Vissi ekki fyrr en nú að þú værir aðkomumaður.

G. Tómas Gunnarsson, 31.7.2007 kl. 04:09

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband