Agureyri II

Ekki lít ég á mig sem aðkomumann á Akureyri, þótt ég sé ekki fæddur hér. Ég hef alltaf verið talinn til heimamanna. Það er gott, því að í Reykjavík er ég líka talinn til heimamanna og ekki er verra að eiga víða heima.

Mér þykir ákaflega vænt um báða bæina og ekki síður um Laugar í Sælingsdal, þar sem við hjónin bjuggum í áratug. Dalamenn reyndust okkur einkar vel og við höfum sterkar taugar vestur. Þangað er líka afar gott að koma.

Orð mín um Akureyri mega ekki skiljast sem svo að mér þyki ekki vænt um bæinn. Síður en svo. Hins vegar skal það fúslega viðurkennt að fyrstu árin leist mér ekki á blikuna. Enda var Akureyri sjálfri sér nóg þá, líka hvað fólk varðaði. Nú er öldin önnur hvað fólksstrauminn snertir og mikil hreyfing á fólki að og frá bænum. Það er afskaplega gott mál og raunar sveitarfélaginu bráðnauðsynlegt.

Það ríkir kraftur og bjartsýni á Akureyri, finnst mér, þó að vissulega megi alltaf finna að hinu og þessu ef maður endilega vill. Hér hefur margt gott verið gert á undanförnum árum og barlómurinn löngu horfinn, sem einkenndi bæinn um hríð eftir fall Sovétríkjanna og Sambandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband