Besti auðjöfurinn!

Alveg ætlaði ég vitlaus að verða úr hlátri þegar ég opnaði Fréttablaðið í morgun og sá að þar var heil síða lögð undir "álitsgjöf" um það hver væri besti auðmaður Íslands! Í fyrstu fannst mér sem myndirnar á síðunni gæfu til kynna að þarna væri um einhvers konar brandara að ræða, en þegar ég fór að lesa kom í ljós að hér var á ferð rammasta alvara. Meðal álitsgjafanna var sæmilega virðulegt fólk, en ég verð nú að segja eins og er að mér finnst svona vitleysa frekar eiga heima á síðum fyrirsagnatímarita á borð við Séð og heyrt en í dagblaði sem dreift er á mörg heimili og vill láta taka sig alvarlega.

Ég efa hins vegar ekki að þeir Björgólfsfeðgar og Jóhannes "White Fence" Jónsson eru ágætlega að þessu komnir. Í einfeldni minni finnst mér svona leikur bara í besta falli svolítið ósmekklegur og dálítið hlægilegur, í versta falli móðgun við þá sem minna mega sín og geta ekki séð af fé til líknarmála þótt þeir fegnir vildu. En líklega er ég bara svona neikvæður, eins og fyrri daginn.

Kannski er gúrkutíð um að kenna. Það er ósköp lítið að gerast í rauninni, bara menningarnótt í Reykjavík, aflþynnuverksmiðja á Akureyri, olíuhreinsunarstöð við Arnarfjörð, gengislækkun krónunnar, ljósgeisli í málefnum geðfatlaðra barna og unglinga... er það nema von að blöð þurfi að fylla síður sínar af einhverju uppbyggilegra efni!

Ég treysti því að í Fréttablaðinu á morgun verði heil síða með umfjöllun um bestu öreiga Íslands. Hlakka til að sjá hverjir álitsgjafarnir verða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband