Styr?

Ég las það í frísnepli í gær að nokkur styr stæði um bæjarstjóra Akureyringa. Kannast lesendur við bæjar-, sveitar- eða borgarstjóra sem ekki stendur styr um? Ekki ég. Fólk í svona starfi er alltaf umdeilt. Það er einfaldlega bara þannig.

Í blaðinu stendur líka að margar óánægjuraddir heyrist vegna ákvarðana Sigrúnar Bjarkar bæjarstjóra. Í fyrsta lagi er ég ekki alveg sannfærður um að Sigrún Björk taki allar hinar umdeildu ákvarðanir ein. Í öðru lagi held ég að allar ákvarðanir séu í eðli sínu umdeilanlegar. Það er voðalega erfitt að hafa alla ánægða. Ekki síst þegar maður er bæjarstjóri. Þess vegna blæs ég á svona fullyrðingar.

Bæjarstjórn mun hafa lækkað greiðslur til þeirra foreldra sem þurfa á dagmæðrum og -feðrum að halda. Í klausunni er því haldið fram að foreldrum þessum gremjist að á sama tíma sé miklum fjárhæðum mokað í menningarhús sem hafi farið langt yfir þann kostnað sem áætlaður var í upphafi.

Ég ætla nú að vera svo róttækur - eða afturhaldssamur, eftir atvikum - að halda því fram að foreldrar ungra barna þurfi ekki allir á dagforeldrum að halda. Ekki yrði ég hissa þótt ein fyrirvinna dygði í nokkrum tilfellum - en þá þarf kannski að skipta nýja lúxusjeppanum út fyrir ársgamlan fólksbíl, selja vélsleðann og sleppa litun og strípum annan hvern mánuð. Ég veit vel að það er ekki í tísku að hafa litlu börnin heima, en það gæti verið ráð fyrir þá foreldra sem hafa efni á því og geta mögulega dregið úr neyslunni og lúxusnum. Þá verða líka til fleiri pláss hjá dagforeldrum fyrir þau ungbörn sem virkilega þurfa á því að halda að einhver annist þau á meðan pabbi og mamma vinna fyrir nauðþurftunum.

Menningarhúsið er umdeild framkvæmd en hún er komin af stað og ekki verður þar aftur snúið. Kostnaðarhliðina þekki ég ekki en veit að okkur Akureyringa vantar tilfinnanlega hljómleikasal. Ég vona bara að fleiri muni komast þar að en Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, þótt hún sé vissulega ágæt til síns brúks.

Húsbyggjendur hafa verið ósáttir vegna tafa á framkvæmdum og ýmsum skipulagsmálum, segir blaðamaður í klausu sinni. Er það svo? Ég þekki ekkert sveitarfélag þar sem ekki er óánægja meðal einhverra hópa, misjafnlega fjölmennra, með skipulagsmál. Sjálfur er ég hundóánægður með ýmislegt en harðánægður með annað. Ætli svo sé ekki um flesta, ef grannt er skoðað?

Í blaðinu er það einnig talið Sigrúnu Björk bæjarstjóra til lasts að hafa fengið Jóhannes í Bónus upp á móti sér. Bíðum nú við ... hvað er svona skelfilegt við það? Er tilvera og framtíð Akureyrar í voða ef Jóhannes í Bónus er ósáttur við bæjarstjórann? Það eru aldeilis völd og áhrif sem maðurinn hefur.

Ég sit ekki hér og skrifa til að verja gjörðir bæjarstjóra með kjafti og klóm. Síður en svo. Sigrún Björk er vissulega umdeild - en það var Kristján Þór líka og Jakob og Sigfús og Bjarni og nafni minn Bergs og þeir allir saman. Ég settist niður vegna síðasta atriðisins sem blaðamaðurinn nefnir.

Blaðamaðurinn heldur því nefnilega fram að bæjarstjórinn hafi meinað ungu fólki að koma í bæinn um verslunarmannahelgina.

Þvílíkt bull. Engum, sem hefur sæmilega hreinan skjöld, hefur verið meinað að koma til Akureyrar, að því er ég best veit, hvorki fyrr né síðar.

Blaðamennska af þessu tagi er engum sæmandi.

Og hananú.

Já, svo gerðust stórtíðindi í gær. Ég var sammála Ögmundi Jónassyni. Þetta er líklega í fyrsta skipti sem það gerist. Orð hans um forsetann og braskarana voru í tíma töluð og verða vonandi til þess að vekja umræður (þótt forsetinn hafi ekki áhuga á að taka þátt í þeim) og skoðanaskipti um hlutverk og störf forsetans.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband