15.12.2007 | 14:28
Hroki og hleypidómar
Ég á það til að verða alveg ægilega hrokafullur. Dæmi aðra villt og galið og finnst allt fáránlegt, sé það öðruvísi en mér finnst að það eigi að vera.
Svo gerist stundum eitthvað sem verður til þess að upp rennur fyrir mér ljós og ég læknast af hrokanum - um stund.
En hann er lævís, helvískur.
Ég fylltist til dæmis hroka þegar ég sá hrokann í bloggaranum sem fann ráðamönnum þjóðarinnar allt til foráttu yfir því að hafa ekki tjáð sig og gripið strax til aðgerða í máli stúlkunnar sem lenti í hremmingunum á Kennedyflugvelli. Bloggfærslan var skrifuð fáeinum klukkustundum eftir að stúlkan ritaði sína bloggfærslu og því óvíst að ráðamenn hafi svo mikið sem verið búnir að frétta af málinu.
Svo hugsaði ég með mér að svona mætti ég ekki hugsa. Með því að hneykslast á því hvað bloggarinn var hrokafullur í garð ráðamannanna sem voru svo hrokafullir að hafa ekkert gert í máli stúlkunnar var ég sjálfur orðinn hrokagikkur - enn á ný - og byrjaður að dæma.
Dæmið ekki, sagði góður maður, til þess að þér verði ekki dæmdir.
Ég reyni. En mikið asskoti er það erfitt.