18.12.2007 | 21:47
Endurskin
Alveg er ég bit á því að endurskinsmerki skuli ekki fást við hvern einasta afgreiðslukassa í landinu. Raunar ætti eitthvert gott fyrirtæki eða félag að taka sig til og dreifa þeim ókeypis sem allra víðast, helst þannig að hver einasti kjaftur íslenskur fái að minnsta kosti 2-3 stykki. Í gær munaði minnstu að strætó keyrði framhjá mér þar sem ég stóð á biðstöðinni - undir ljósastaur. Vagnstjórinn sá mig ekki, en góð kona í vagninum kom auga á mig og lét hann vita.
Ég var svartklæddur í rökkrinu og án endurskinsmerkja.
Síðdegis í dag horfði ég upp á bíl snarsveigja framhjá miðaldra konu sem gekk á götunni (engin var gangstéttin þar sem hún var á ferli) því að bílstjórinn sá hana ekki fyrr en hann var kominn að henni. Konan var dökkklædd og án endurskinsmerkja.
Eitthvað heyrði ég um að Neytendasamtökin hefðu skorað á verslunareigendur að hafa endurskinsmerki við kassana hjá sér í stað sælgætis.
Ég styð það heils hugar. En merkin verða að vera vönduð, ódýr og þægileg viðfangs. Það ætti ekki að vera svo erfitt - er það?
Athugasemdir
þetta er alveg rétt hjá þér. var einmitt að hugsa um þetta um daginn. fáir með endurskin eins og það gæti reddað manni. og þegar ég var að pæla í þessu, hvað notkun hefur minnkað, þá var keyrt á fjórtán ára son vinafólks míns á gangbraut.
hann slasaðist slatta og missti meðvitund og bíllin stórskemmdist.....
maður á að gera þetta sjálfur og auðvitað láta börnin sín vera með merki, en þau vilja ekki svona dinglandi dót samt
arnar valgeirsson, 19.12.2007 kl. 00:33